Skagamönnum fjölgar í röðum sænska liðsins Norrköping

Sænska knattspyrnuliðið Norrköping hefur á undanförnum misserum verið með sterka tengingu á Akranes. Og í þessari viku fékk félagið til sín þjálfara og leikmann sem eru einnig með slíka tengingu á Skagann.

Hjá félaginu eru tveir leikmenn úr röðum ÍA, frændurnir Oliver Stefánsson og Ísak Bergmann Jóhannesson. Arnór Sigurðsson, sem er í dag leikmaður CSKA í Moskvu, hóf atvinnumannaferilinn hjá sænska liðinu eftir að hafa leikið með ÍA.

Bjarni Guðjónsson, fyrrum leikmaður ÍA, hefur ráðið sig til starfa hjá Norrköping og mun hann þjálfa U-19 ára lið félagsins. Bjarni var áður aðstoðarþjálfari KR í PepsiMax-deild karla. Bjarni mun fylgja syni sínum til Norrköping en Jóhannes Kristinn Bjarnason samdi við félagið nýverið. Jóhannes Kristinn er fæddur árið 2005 og þykir einn efnilegasti leikmaður Íslands.

Jóhannes Kristinn mun hitta fyrir frænda sinn Ísak Bergmann en þeir eru bræðrasynir – en Bjarni og Jóhannes Karl Guðjónsson þjálfari karlaliðs ÍA eru bræður. Oliver og Ísak Bergmann eru einnig náskyldir en þeir eru systrasynir, en Magnea móðir Olivers og Jófríður, móðir Ísaks, eru systur.

Jóhannes fór á reynslu hjá Norrköping í október og hefur sænska félagið nú boðið honum samning sem hann hefur samþykkt.