Brimilshólar ehf frá Akranesi kaupir Eðalfisk í Borgarnesi

Eigendur Eðalfisks ehf. í Borgarnesi hafa samþykkt kauptilboð Brimilshólma ehf. í allt hlutafé félagsins. Tilboðið er þó háð tilteknum fyrirvörum af hálfu beggja aðila. Þetta kemur fram í tilkynningu.

Fjölmennur hópur fjárfesta á Akranesi stendur á bak við Brimilshóla en félagið keypti einnig Norðanfisk á Akranesi af Brimi á síðasta ári.

Eðalfiskur ehf. sérhæfir sig í framleiðslu, sölu og dreifingu á úrvals ferskum, frystum, reyktum og gröfnum laxaafurðum þar sem stór hluti afurða fyrirtækisins er seldur á erlendum mörkuðum.  Jafnframt eru þessar afurðir vinsælar á innanlandsmarkaði ásamt reyktum silungi, reyktri Egilssíld og graflaxsósu.

Félagið hefur það að leiðarljósi að leggja áherslu á langtíma viðskiptasamband við viðskiptavini og birgja.  Eðalfiskur hefur veitt  viðskiptavinum  sínum úrvals þjónustu í að verða 34 ár.  

„Á bak við Brimilshólma, sem kaupir Eðalfisk, er öflugur hópur sem er að veðja á framtíðarsýn til sóknar á erlendum markaði og við höfum mikla trú á tækifærum á innanlandsmarkaði líka.  Þetta er sami hópur og kom að kaupum á Norðanfiski ehf. á síðasta ári sem er líka traust og gott félag sem þjónustar stóreldhús, verslanir og veitingastaði á innanlandsmarkaði. Ég vil þakka eigendum Eðalfisks fyrir faglega vinnu í þessu söluferli. ” segir Inga Ósk Jónsdóttir fyrir hönd Brimilshólma.

„Rekstur Eðalfisks á sér langa og farsæla sögu í Borgarnesi sem við erum stolt af og við fögnum því að kaupendur séu öflugur hópur og höfum við fulla trú að félagið muni halda áfram að vaxa og dafna með nýjum eigendum,“ segir Kristján Rafn Sigurðsson framkvæmdastjóri og einn núverandi eigenda Eðalfisks.

Eins og áður segir er hið samþykkta tilboð háð fyrirvörum, meðal annars um niðurstöðu áreiðanleikakönnunar, en aðilar gera ráð fyrir að ljúka viðskiptunum á næstu vikum.     

Fyrirtækið Eðalfiskur var stofnað árið 1987 af aðilum í Borgarfirði sem vildu vinna afurðir úr laxi, þar sem héraðið var þekkt af einum bestu og fallegustu laxveiðiám landsins. Frá árinu 2004, er núverandi eigendur keyptu laxvinnsluhluta Eðalfisks hefur mikill vöxtur orðið á starfseminni. Í dag er hlutfall ferskrar vöru um 90% af sölutekjum sem að mestu er seldur erlendis.

Eðalfiskur er fjölskyldufyrirtæki sem leggur áherslu á langtímaviðskiptasamband við viðskiptavini, ytri sem innri.

Framleiðsluvörum Eðalfisks hefur verið vel tekið jafnt innanlands sem erlendis, en hlutdeild útflutnings er hraðvaxandi vegna mikillar eftirspurnar. Vörumerki félagsins á innanlandsmarkaði eru: “Eðalfiskur” og “Lax er Eðalfiskur”. Meðal erlendra vörumerkja eru: “Iceland Gourmet“ og „Iceland Supreme”.