Þriggja ára bið á enda – Venus landar rúmum 500 tonnum af loðnu

Uppsjávarskipið Venus NS 150 kom til hafnar í dag á Akranesi með um 530 tonn af loðnu. Þetta er í fyrsta sinn í þrjú ár sem loðnufarmi er landað á Akranes en Venus er í eigu Brims og er skipið skráð á Vopnafirði.

Aflinn fer í hrognavinnslu og samkvæmt heimildum Skagafrétta er loðnufarmurinn góður hvað hrognavinnsluna varðar.

Sævar Freyr Þráinsson, bæjarstjóri Akraness, færði áhöfninni veglega rjómatertu að þessu tilefni. Bergur Einarsson skipstjóri tók við tertunni fyrir hönd áhafnarinnar.

„Við á Akranesi fögnum því sérstaklega að sjá loðnuna vera landað á Akranesi. Það var einstaklega gaman að líta við á Venusi og tóku skipverjar sem ég hitti á mjög vel á móti mér. Léttur og skemmtilegur andi um borð.
Áhöfnin hyggst njóta rjómatertunar með kaffinu í dag en Alfreð Freyr í Kallabakarí græjaði hana ásamt sínu flotta fólki,“ skrifar Sævar Freyr á fésbókarsíðu sína.

Brim hf. var stofnað 13. nóvember árið 1985 við sameiningu Bæjarútgerðar Reykjavíkur og Ísbjarnarins. Hét fyrirtækið fyrst Grandi hf. síðar HB Grandi hf. Árið 2019 var nafninu breytt í Brim hf.

Venus í Akraneshöfn í morgun. Mynd/Valentínus.
Venus í Akraneshöfn í morgun. Mynd/Valentínus.