Knattspyrnudómarafélag Akraness er í fremstu röð á landsvísu og er starf félagsins kraftmikið. Félagið er í stöðugri endurnýjun og einn þáttur í uppbyggingu félagsins er byrjendanámskeið fyrir dómara.
Eitt slíkt námskeið verður haldið af Knattspyrnudómarafélagi Akraness og ÍA í salnum á Jaðarsbakka miðvikudaginn 10. mars kl 20:00. Þetta kemur fram í tilkynningu frá félaginu.
Ókeypis aðgangur er á námskeiðið, sem stendur yfir í um tvær klukkustundir og er öllum opið sem náð hafa 15 ára aldri. Grímuskylda er við komu og brottför, en ekki á námskeiðinu sjálfu þar sem hægt er að tryggja viðeigandi fjarlægðarmörk.
Á námskeiðinu er lögð aðaláhersla á knattspyrnulögin en auk þess verður einnig farið yfir ýmis konar kynningarefni, fræðsluefni, skýringar og skýringarmyndir.
Námskeiðinu lýkur svo með skriflegu prófi sem tekið verður seinna.
Enginn annar en Ívar Orri Kristjánsson mun sjá um námskeiðið, en Ívar er einn allra besti dómari okkar landsmanna.
KFÍA munu bjóða upp á veitingar fyrir þá sem mæta á námskeiðið.
Sá sem lýkur námskeiðinu hefur rétt á að dæma í 4. flokki og neðar ásamt því að vera aðstoðardómari upp í 2. flokk. 100% viðvera á námskeiðinu er skilyrði.
Skráning fer fram í gegnum tölvupóst, áhugasamir aðilar senda tölvupóst á [email protected].
Einungis staðfestar skráningar gefa rétt á setu á námskeiðinu.