Hryllingsmyndahátíðin Frostbiter fer fram um næstu helgi á Akranesi og verður þetta í fimmta sinn sem þessi kvikmyndahátíð fer fram. Sýningar fara fram í Gamla frystihúsinu við Bárugötu – og er takmarkað framboð á miðum á hátíðina vegna samkomutakmarkana. Akraneskaupstaður styrkir þetta verkefni.
Á föstudaginn verður hin bráðskemmtilega hryllingsmynd PG: Psycho Goreman sýnd. Umfjöllunarefni myndarinnar eru ung systkini sem finna undarlegan demant sem að stjórnar hræðilegu skrímslu sem ætlar að eyða heiminum. Systkinin sjá sér leik á borði og láta skrímslið vesenast fyrir sig.
Á föstudeginum verður einnig haldið Horror Pub Quiz þar sem að glæsilegir vinningar eru í boði frá Búllunni, Make Up Forever og 24Iceland.
Á laugardaginn verður mikið fjör þar sem 35 frábærar stuttmyndir verða á dagskrá. Alls voru 200 myndir sendar inn til sýningarinnar en þessar myndir voru valdar að þessu sinni.
Í lok dagsins kjósa áhorfendur um bestu myndina. Verðlaunaafhending er svo seinna um kvöldið í kjötsúpu partýinu sem hefur vakið athygli á undanförnum árum. Á lokahátíðinni verður hin klassíska hrollvekja Wasp Woman sýnd.
Armband á hátíðina kostar aðeins 1000 kr sem veitir gestum aðgang á allar sýningar og viðburði hátíðarinnar. Það er takmarkaður sætafjöldi og vegna samkomutakmarkana verða hátíðargestir að taka frá sæti fyrirfram svo hægt er að ráðstafa sætum í samkvæmi við fjarlægðarmörkin.