Tugmilljarða sölusamningur um umhverfisvænt ál


Sólveig Kr. Bergmann yfirmaður samskipta hjá Norðuráli skrifar:

Rétt fyrir síðustu áramót gerðum við hjá Norðuráli samning við austurríska framleiðslufyrirtækið Hammerer Aluminium Industries um sölu á 150 þúsund tonnum af Natur-Al áli, sem er vistferilsvottað ál með eitt lægsta kolefnisfótspor í heiminum. Innan við fjórðung af heimsmeðaltalinu. Þessi sala er afrakstur vinnu sem staðið hefur yfir innan Norðuráls um nokkurra ára skeið og mikið gleðiefni hjá okkur sem komið hafa að verkefninu. Miðað við verð á álmörkuðum má áætla að virði samningsins sé um 45-50 milljarðar.

Flest erum við meðvituð um umhverfis- og loftslagsvána, en ætla má að við vanmetum mörg hversu miklar áhyggjur almenningur hefur af þessum málum. Í umhverfiskönnun Gallup kom fram að hlutfall þjóðarinnar, sem telur loftslagsbreytingar vera helstu áskorun Íslands, hefur farið úr 23% árið 2017 í 35% árið 2020. Kannanir Gallup í Bandaríkjunum eru jafnvel enn meira sláandi. Frá árinu 2014 hafa fleiri Bandaríkjamenn viljað taka umhverfisvernd fram yfir hagvöxt. Árið 2000 töldu 70% Bandaríkjamanna að hagvöxtur væri mikilvægari en umhverfisvernd, en í fyrra voru 65% á því að umhverfisvernd væri hagvextinum mikilvægari.

Þessar áhyggjur hafa raunveruleg áhrif á hegðun fólks, en í íslensku Gallup-könnuninni kom fram að rúmur helmingur aðspurðra hafði breytt neysluvenjum sínum af umhverfisástæðum.

Þetta er einnig skýrt ákall til fyrirtækja um að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og annarra óæskilegra efna í sínum rekstri, en ekki síður að bjóða upp á vörur og þjónustu sem auðvelda fólki að draga úr áhrifum á umhverfi sitt.

Neytendur eru meðvitaðri og gagnrýnni en þeir voru áður. Krafan um gagnsæi og aukna upplýsingagjöf verður æ háværari. Það er ekki nóg að segja fólki að varan sé græn. Það verður að vera hægt að styðja þá fullyrðingu með gögnum og rekja framleiðsluferilinn allan.

Enn grænna ál

Fyrir nokkrum árum tókum við hjá Norðuráli ákvörðun um að þróa vöru sem svaraði þessu kalli. Við vorum í svolítið sérstakri stöðu, því ál er almennt umhverfisvænn málmur. Ál er létt og meðfærilegt, og er notað í æ ríkari mæli í flugvélar og bíla til að draga úr eldsneytisnotkun. En ál er líka mjög endurvinnanlegt. Þegar ál er endurunnið sparast ríflega 90% af þeirri orku sem þyrfti að nota til að vinna nýtt ál í sama magni, enda eru um 75% af öllu áli sem framleitt hefur verið frá upphafi enn í umferð. Það er því margt sem vinnur með álinu.

Að auki hefur starfsfólk Norðuráls verið metnaðarfullt í gegnum tíðina og álið okkar er framleitt með grænni og endurnýjanlegri raforku.

Þegar þetta tvennt er lagt saman er ál sem framleitt er hér á landi í raun einstakt hvað varðar umhverfisáhrif. Þar á meðal kolefnissporið.

Sólveig Kr. Bergmann.

Við ákváðum þó að ganga skrefinu lengra. Fórum í gegnum allt framleiðsluferlið, frá því að báxít er grafið upp og þar til fullunnið ál er komið til viðskiptavinar. Umhverfisáhrif allra hlekkja í framleiðslukeðjunni voru metin og skrásett. Þar sjáum við svart á hvítu hvar og hvernig má haga innkaupum og hanna framleiðsluferlið til að lágmarka umhverfisáhrif.

Afraksturinn er vörumerkið Natur-Al, sem er skrásett vörumerki beggja vegna Atlantshafsins. Ál undir merkjum Natur-Al hefur kolefnisspor sem er undir 4 tonnum koltvíoxíðígilda á hvert tonn af áli, og er þar allt tekið með í reikninginn – öflun báxíts og vinnsla áloxíðs til álvinnslu og flutningur alla leið til kaupanda. Heildarlosun koltvíoxíðígilda við framleiðslu Natur-Al er innan við fjórðungur af meðallosun álframleiðslu í heiminum, sem er um 18 tonn á hvert tonn af áli.

Vistferilsgreiningin er unnin af óháðum aðila og við getum boðið viðskiptavinum okkar öll gögn sem þarf til að greina kolefnisspor á neytendavörum sem framleiddar eru úr Natur-Al áli. Salan til Hammerer er staðfesting á því að við tókum rétta ákvörðun þegar við lögðum af stað í þetta ferðalag. Viðræður við fleiri mögulega kaupendur standa yfir.

Þessi árangur byggir á stöðugleika í rekstri og ströngum reglum um umhverfismál og nýtingu hreinnar orku í góðu samstarfi við íslensk orkufyrirtæki.

Við hjá Norðuráli erum sannfærð um að framtíðin liggi í vöruþróun sem þessari. Þetta verkefni sýnir líka fram á mikilvægi áframhaldandi þróunar og nýsköpunar í geirum eins og okkar.