„Bæjarmiðlarnir eru í raunverulegri útrýmingarhættu“

„Bæjarmiðlar eru í raunverulegri útrýmingarhættu nema gripið verði inn í á einhvern hátt. Stóru miðlarnir eru mjög mikilvægir en munu aldrei koma í stað staðbundinna,“ skrifar Olga Björt Þórðardóttir ritstjóri og eigandi bæjarblaðsins Hafnfirðings.

Olga Björt hefur ákveðið að gera hlé á rekstri og útgáfu Hafnfirðings og í pistli sínum vekur hún athygli á erfiðri stöðu bæjarfréttamiðla.

Pistill Olgu er hér fyrir neðan:

Kæru lesendur, fylgjendur og velunnarar.
Eftir miklar vangaveltur undanfarnar vikur og mánuði hef ég ákveðið að gera hlé á rekstri og útgáfu Hafnfirðings. Rekstrarforsendur eins og þær eru í dag eru því miður afar slæmar og koma þar inn fjölmargar ástæður. Samkeppni við netrisa og óafgreitt fjölmiðlafrumvarp hafa mikið með þetta að gera, sem og hár prentunar- og dreifingarkostnaður. Síðasta blaðið verður páskablaðið 31. mars.
Mér hlotnaðist sú gæfa að fá tækifæri til að nýta menntun mína, reynslu og hæfileika í að taka að mér rekstur bæjarblaðs Hafnfirðinga á erfiðum tímum. Vegna þess að ég er að eðlisfari jákvæð og bjartsýn, og Hafnarfjörður stórkostlegur bær sem endalaust er hægt að fjalla um, hafði ég líka trú á að þetta myndi ganga upp með samstilltum áhuga bæjarbúa og fyrirtækja. Ég á svo mörgum að þakka að hafa tekið þátt í þessu ævintýri með mér og Hafnarfjarðarbæ með að vera þar fremstur í flokki og starfsfólkið einstakt fagfólk, í alls kyns störfum, vítt og breitt um bæinn.
Ég hef lagt mig fram við að prófa fjölbreytta fjölmiðlun og fjalla um það sem er hjartanu næst og mér hefur fundist mikilvægast hverju sinni, þótt áhugasviðum hafi vissulega fjölgað með hverjum mánuðinum. Mig langar að biðja ykkur um að hafa í huga að það er alls ekki sjálfgefið að einstaklingar með ástríðu af þessu tagi og reynslu búi í bæ eins og þessum og sé til í að taka svona slag og fórna miklu fyrir.

Bæjarmiðlar eru í raunverulegri útrýmingarhættu nema gripið verði inn í á einhvern hátt. Stóru miðlarnir eru mjög mikilvægir en munu aldrei koma í stað staðbundinna.

Sem 13 ára Hafnfirðingur hefði ég ekki getað fengið betra tækifæri til að kynnast Hafnarfirði og bæjarbúum en á þennan hátt og það mun ávallt fylgja mér, hvernig sem fer.
Kær kveðja, Olga Björt Þórðardóttir.