Nikola og Sigurður eru „Upplesarar ársins 2021“

Upplestrarkeppni grunnskólanna á Akranesi fór fram um miðja síðustu viku í Tónbergi. Alls tóku 12 nemendur þátt í úrslitakeppninni, sex nemendur úr Brekkubæjarskóla og sex nemendur úr Grundaskóla.

Keppendur lásu ýmist sögur eða ljóð. Sigurður Brynjarsson úr Grundaskóla og Nikola Jadwizyc úr Brekkubæjarskóla stóðu uppi sem sigurvegarar eftir skemmtilega keppni og eru þau „Upplesarar ársins 2021“ hjá sínum skólum.

Dómnefndina skipuðu þau Halldóra Jónsdóttir, sr. Þráinn Haraldsson og Jakob Þór Einarsson.

Sigurvegarar fengu í verðlaun peningagjöf og bók. Upplesarar kvöldsins fengu bókagjöf og einnig þeir aðilar sem komu að undirbúningi keppninnar.

Allir nemendur í 7. bekk fengu viðurkenningaskjal fyrir sína þátttöku.

Nánar á vef Akraneskaupstaðar.