Hvernig er staðan á Covid-19 bólusetningu á Vesturlandi?

Bólusetning vegna Covid-19 hefur farið fram víðsvegar á Vesturlandi hjá starfsfólki Heilbrigðisstofnunar Vesturlands á undanförnum vikum. Þura Björk Hreinsdóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunar og rekstrar hjá HVE, segir að bólusetningin gangi vel en bólusetning er hafin hjá tæplega 2400 einstaklingum og þar af eru rúmlega 1100 fullbólusettir á Vesturlandi.

Á vefnum covid.is kemur fram að á Vesturlandi sé bólusetning hafin hjá rétt tæplega 1300 einstaklingum og þar af hafi rúmlega 1100 einstaklingar fengið titilinn „fullbólusettur“. Hlutfallslega hafa rúmlega 6% íbúa á Vesturlandi fengið fulla bólusetningu og 7,3% íbúa eru byrjaðir í bólusetningarferlinu. Til samanburðar eru tæplega 5% íbúa á Höfuðborgarsvæðinu byrjaðir í bólusetningarferlinu og 5,2% hafa lokið bólusetningarferlinu.

Tölur úr bólusetningum í þessari viku eru ekki í þessum tölum. Búið er að bólusetja alla á svæði HVE sem tilheyra hópum 1-5 samkvæmt reglugerð – sjá hér

Staðan 26.mars 2021 samkvæmt covid.is


FullbólusettirBólusetning hafinÓbólusettir
Austurland7116389544
Höfuðborgarsvæði1236111698212469
Norðurland2630219931919
Suðurland1707203327648
Suðurnes1286107525834
Vestfirðir4682065611
Vesturland1147138116227

„Við erum að klára þá einstaklinga sem eru fæddir á árunum 1942-1946 og vonumst til þess að það fari langleiðina fyrir páska. Í viku 15 munum við klára áðurnefnda aldurshópa og hefja bólusetningar á aldurshópnum sem er fæddur á árunum 1947-1951. Miðað við fréttir dagsins í dag þá gæti það breyst ef við fáum meira af bóluefni fyrir páska,“ segir Þura í samtali við skagafrettir.is. Hún bætir því við að það sé erfitt að gera áætlanir til lengri tíma. 

„Við fáum alla jafna að vita með stuttum fyrirvara hversu mikið af bóluefni við fáum hverju sinni - og alltaf með einhverjum fyrirvara um breytingar. Einnig erum við ennþá að bíða eftir fyrirmælum vegna AstraZeneca bóluefnis.“

Aðspurð um hvernig bólusetningarferlið sé hjá HVE segir Þura að starfsfólk stofnunarinnar hafi leyst fjölmörg krefjandi verkefni með miklum sóma. Starfsfólkið á starfsstöðvum HVE eiga mikið hrós skilið. Verkefnið „bólusetning vegna Covid-19“ er viðbót við öll önnur störf starfsmanna á HVE. Því eðli málsins samkvæmt þá hverfa dagleg verkefni HVE ekki þrátt fyrir Covid-19 faraldurinn.“ 

Ferlið sem fylgir því að taka á móti bóluefni á Akranesi þarf að vera nákvæmt því varan er viðkvæm og mikilvæg. Þura segir að starfsfólk HVE geri allt sem í þeirra valdi stendur til að koma bóluefninu til skila þrátt fyrir ýmsar áskoranir.

„Við blöndum Pfizer bóluefninu hér á Akranesi og keyrum því síðan út á starfsstöðvar HVE - sem sjá síðan um að bólusetja á sínum stað. Það er að mörgu að huga, tímasetningar þurfa að vera nákvæmar, þar sem að bóluefnið geymist aðeins í fimm daga í venjulegum kæli eftir afhendingu. Eftir blöndun þarf að gefa bóluefnið innan við sex klukkustunda. Starfsmenn HVE hafa keyrt bóluefnið á milli í allskonar veðri og aðstæðum. Í tvígang hefur veðrið sett strik í reikninginn. Í fyrra skiptið fengið við aðstoð frá björgunarsveitabíl og bílstjóra til að keyra með hjúkrunarfræðing á milli Búðardals og Hólmavíkur. Í síðara skiptið var veðrið það slæmt að við hættum við að fara með bóluefnið frá Akranesi. Margir á Akranesi fengu í kjölfarið óvænt símtal eða sms um boðun í bólusetningu - einstaklingar sem áttu að koma í bólusetningu viku síðar. Slíkar áskoranir gera þetta verkefni meira spennandi,“ segir Þura. 

Nánar um stöðuna á bóluefni vegna Covid-19.