Valgarður stefnir á þing – sækist eftir 1. sæti hjá Samfylkingarinnar í NV-kjördæmi

Valgarður Lyngdal Jónsson, forseti bæjarstjórnar Akraness, býður sig fram í fyrsta sæti á framboðslista Samfylkingarinnar í Norðvesturkjördæmi fyrir Alþingiskosningar 2021. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Valgarði sem hann birti í morgun á fésbókarsíðu sinni.

Tilkynning um framboð í Norðvesturkjördæmi

Kæru vinir

Ég býð mig fram í fyrsta sæti á framboðslista Samfylkingarinnar í Norðvesturkjördæmi fyrir Alþingiskosningar 2021.

Eiginkona mín er Íris Guðrún Sigurðardóttir aðstoðarleikskólastjóri og eigum við þrjú börn og einn dótturson. Ég fæddist á Akranesi árið 1972 og ólst upp við sveitastörf á búi foreldra minna að Eystra-Miðfelli á Hvalfjarðarströnd. Föðurætt mín á uppruna sinn á Akranesi, í Borgarfirði og í Miðfirði en móðurætt mín kemur frá Árneshreppi á Ströndum. Ég gekk í grunnskóla að Heiðarskóla í Leirársveit, útskrifaðist frá Fjölbrautaskóla Vesturlands á Akranesi árið 1992 og lauk námi frá Kennaraháskóla Íslands 1996.

Kennsluferilinn hóf ég á Patreksfirði þar sem ég bjó í þrjú ár. Síðan þá hef ég starfað við kennslu og stjórnun í grunnskólum í Reykjavík, á Flúðum í Hrunamannahreppi og síðan árið 2003 á Akranesi þar sem ég hef starfað við báða grunnskóla bæjarins en er nú umsjónarkennari á unglingastigi Grundaskóla. Um tveggja ára skeið starfaði ég við fræðslu- og kynningarmál hjá Orkuveitu Reykjavíkur auk þess sem ég kenndi um skeið kennslufræði á námskeiðum fyrir flugkennara við Flugskóla Íslands.

Ég fór fyrst í framboð fyrir Samfylkinguna á Akranesi árið 2006 og sat þá um tíma í menningar- og safnanefnd bæjarins. Ég tók sæti í bæjarstjórn eftir kosningarnar 2014, sat í minnihluta það kjörtímabil en tók við oddvitasæti listans fyrir kosningarnar 2018. Í þeim kosningum fékk Samfylkingin ríflega 30% atkvæða á Akranesi, þrjá menn kjörna í bæjarstjórn og höfum við starfað í meirihluta á yfirstandandi kjörtímabili ásamt Framsókn og frjálsum. Við höfum notað tímann vel á þessu kjörtímabili og haldið vel utan um samfélag í örum vexti, með félagshyggju og styrk samfélagsins að leiðarljósi.

Ég hef alltaf verið félagshyggju- og jafnaðarmaður. Ég trúi því að sameinuð séum við ávallt sterkari en sundruð, að samvinna sé ávallt árangursríkari en samkeppni. Jafnaðarhugsjónin er auðlind, því hún felur það í sér að allir hafi jafnan rétt til að njóta styrkleika sinna en vinnur gegn sóun á mannauði og hæfileikum. Jafnaðarstefnan stuðlar að samheldni, samvinnu, trausti og mannvirðingu en vinnur gegn mismunun, skorti og sóun.


Valgarður Lyngdal Jónsson. Mynd/aðsend

Ég vil meðal annars sjá jafnaðarstefnuna birtast í virkri velferðarstefnu, sem horfir til þess að efla virkni fólks og getu til þátttöku í samfélaginu, ekki síst atvinnuþátttöku, í stað þess að horfa um of á það sem fólk skortir til fullrar þátttöku. Það er einnig löngu tímabært að jafnaðarstefnan komist að borðinu hvað varðar þjónustu við aldraða og að þar verði meðal annars látið af þeirri sveltistefnu sem ríkisvaldið hefur viðhaft gagnvart hjúkrunarheimilum sem rekin eru af sveitarfélögum.

Sem jafnaðarmaður vil ég leggja mitt af mörkum til að stuðla að jöfnum aðgangi allra að þeim lífsgæðum sem samfélagið okkar hefur að bjóða. Í hinu víðfeðma Norðvesturkjördæmi er víða verk að vinna svo þetta markmið megi nást. Þar má nefna löngu tímabæra nútímavæðingu vegakerfisins og jafnt aðgengi að öruggum fjarskiptum og orku svo atvinnulíf megi þróast og dafna. Víða um kjördæmið hefur stórgallað fiskveiðistjórnunarkerfi unnið mikinn skaða og brýnt er að jafna þann aðstöðumun sem þar hefur skapast, auka möguleika á nýliðun og tryggja þjóðinni sanngjarnan arð af sameiginlegri auðlind okkar. Fjölbreytt atvinnulíf er forsenda lífsgæða í okkar kjördæmi og þar skiptir stuðningur stjórnvalda höfuðmáli, að hlúð sé að vaxtarsprotum en ekki síður að gætt sé að rekstrarumhverfi þeirra fyrirtækja sem hér starfa. Sem dæmi má nefna að við eigum að líta á fyrirtæki í stóriðju sem okkar mikilvægustu samstarfsaðila við að draga úr kolefnisspori Íslands og styðja þau til góðra verka á því sviði.

Nú þegar fjórða iðnbyltingin hefur hafið innreið sína, með aukinni sjálfvirkni, gervigreind og umbyltingu í atvinnulífi gegnir menntakerfið lykilhlutverki í því hvernig okkur auðnast að takast á við þær samfélagsbreytingar sem hún hefur í för með sér. Í þessu kjördæmi búum við einstaklega vel hvað þetta varðar. Við eigum fjölmarga grunnskóla sem eru framsæknir og í fararbroddi á landsvísu í nútímalegum og hugmyndaríkum kennsluaðferðum. Einnig er einstaklega fjölbreytt framboð af framhalds- og háskólamenntun í boði í kjördæminu, sem er einstök samfélagsleg auðlind. Skólarnir okkar eru lykillinn að framtíðinni og að þeim verðum við að hlúa svo þeir fái tækifæri til að þróast til framtíðar og búa börnin okkar undir líf og starf í nýjum veruleika.

Ég sækist eftir stuðningi félaga minna í Samfylkingunni í Norðvesturkjördæmi á kjördæmisþingi næstkomandi laugardag.