Snæfríður vaknar til lífsins á Akranesi – Jón Hjörvar nýr formaður

Snæfríður, félag ungra jafnaðarmanna á Akranesi, var endurvakið í gær þegar aðalfundur félagsins fór fram. Ný stjórn var mynduð og er Jón Hjörvar Valgarðsson forseti félagsins. Þetta kemur fram í tilkynningu frá félaginu.

Nafn félagsins tengist sögupersónunni Snæfríði Íslandssól úr Íslandsklukku eftir Halldór Laxness sem gerist í Akraneshreppi á fyrrihluta 18. aldar.

Í stjórnmálaályktun sem samþykkt var á aðalfundinum er lögð áhersla á að ungt fólk fái meira vægi innan stjórnsýslunnar og komi að ákvarðanatöku, efling borgaravitundar og leggja grunn að málefnalegri stjórnmálaumræðu ungs fólks á Akranesi og aukin jöfnuð í samfélaginu. stjórnmála ályktunin fylgir hér í viðhengi.

Stjórn Snæfríðar, frá vinstri: Guðjón Snær Magnússon, Sara Rut Heimisdóttir, Jón Hjörvar Valgarðsson, Árni Þórir Heiðarsson og Benedikt Júlíus Steingrímsson.

Stjórnmálaályktun Snæfríðar –
Ungir jafnaðarmenn á Akranesi

Á Akranesi með Samfylkinguna í meirihluta í bæjarstjórn hefur átt sér stað gríðarlega mikil og hröð uppbygging í húsnæðismálum, innviðum og skóla- og frístundamálum. Hér á Akranesi eru óteljandi tækifæri fyrir fjölbreytt atvinnulíf, tækifæri til aðgerða í loftslagsmálum í samstarfi við stór fyrirtæki í og við bæinn og frekari tækifæri í að gera bæinn að ákjósanlegum stað fyrir ungt fólk að setjast að. 

Ungt fólk til áhrifa

Ungt fólk um allt land eru að stíga upp innan stjórnkerfisins og í pólitískri þátttöku. Á Akranesi er rík hefð fyrir góðu samtali milli stjórnsýslunnar og ungmenna bæjarins sem UJAKR vill efla enn frekar. Valdefling ungs fólks er mikilvæg fyrir samfélag framtíðar. Í samfélagi á borð við Akranes er auðvelt að veita ungu fólki tækifæri til frekari þátttöku í ákvarðanatöku í málefnum sem þau varða og vill UJAKR leggja grunn að slíku starfi og hækka rödd unga fólksins í bænum. UJAKR vill að Akranes verði ákjósanlegur staður fyrir ungt fólk og barnafjölskyldur til framtíðar búsetu og viljum við enn fremur sýna út á við hvað það er frábært að búa á Akranesi.

Borgaravitund

UJAKR telur mikilvægt að ungt fólk myndi sér sjálfstæðar og upplýstar skoðanir á málefnum sem snýr að þeim og samfélaginu sem það vill búa í og viljum við því gera grundvöll fyrir málefnalegri stjórnmálaumræðu til að efla borgaravitund og lýðræðislega þátttöku. Að búa í lýðræðislegu samfélagi krefst þess að raddir ólíkra hópa innan þess heyrast og með enn frekari þátttöku ungmenna sem standa föst á sínum skoðunum eflum við samfélagið í heild sinni. UJAKR finnst mikilvægt að samfélagið standi vörð um lýðræðið og móta það til framtíðar.

Aukin jöfnuður

Í covid ástandinu hafa stjórnvöld ekki staðið á bak við sveitarfélögin af nægilegri festu. Mikil efnahagskreppa hefur fylgt heimsfaraldrinum sem hefur gert það að verkum að mikilvægum innviðafjárfestingum hefur verið frestað í sveitarfelögum um allt land. UJAKR heldur því fram að jöfnuður og góð velferðarþjónusta er grunnurinn að réttlátu samfélagi sem og skapar öryggi og efnahagslegan stöðugleika. Með því að tryggja öllum aðgang að heilbrigðisþjónustu, menntun og félagsþjónustu, óháð efnahag og búsetu, dregur það úr áhrifum stéttaskiptingar og veitir fleirum tækifæri til fullrar þátttöku í samfélaginu.