„Markmiðið er að fjölga félagsmönnum – og fá fleiri til að taka þátt í öflugu starfi“

„Stuðningsmenn félagsins hafa í gegnum tíðina ávallt verið styrkasta stoð Knattspyrnufélags ÍA. Það er mikilvægt fyrir félagið og samfélagið hér á Akranesi að stækka enn frekar hóp stuðningsmanna. Og allir sem vilja taka þátt sem félagsmenn eru hjartanlega velkomnir,“ segir Eggert Herbertsson formaður Knattspyrnufélags ÍA í samtali við Skagafréttir.

Stjórn félagsins hefur sett sér það markmið að fjölga félagsmönnum í KFÍA. Að því tilefni sendi félagið nýverið út valgreiðslu í heimabanka hjá íbúum á Akranesi og Hvalfjarðarsveit. Þeir sem velja að taka þátt og greiða félagsaðild eru þar með orðnir félagar í Knattspyrnufélagi ÍA.

Eggert bætir því við að Knattspyrnufélag ÍA standi fyrir frábæru íþrótta – og uppeldisstarfi í gegnum yngri flokka félagsins og öflugt afreksstarf er til staðar hjá meistaraflokkum kvenna – og karla.

„Til þess að þetta starf gangi upp þurfa margir að koma að því að styðja við bakið á starfinu. Félagsaðild er að okkar mati frábær leið fyrir alla sem vilja vera hluti af Knattspyrnufélagi ÍA – og taka þátt í að efla innra starf félagsins,“ segir Eggert Herbertsson formaður KFÍA.

„Félagsaðild er að okkar mati frábær leið fyrir alla sem vilja vera hluti af Knattspyrnufélagi ÍA – og taka þátt í að efla innra starf félagsins,“ segir Eggert Herbertsson formaður KFÍA.