Nýjar sóttvarnarreglur taka gildi fimmtudaginn 15. apríl og munu reglurnar gilda í þrjár vikur eða til 6. maí. Umtalsverðar tilslakanir eru í nýju reglunum – og má þar nefna að íþróttir eru leyfðar á ný, sundstaðir opna og líkamsræktarsalir einnig. Almennar fjöldatakmarkanir verða 20 manns.
Helstu tilslakanir frá 15. apríl:
- Almennar fjöldatakmarkanir verða 20 manns.
- Sund- og baðstöðum og heilsu- og líkamsræktarstöðvum heimilt að opna fyrir 50% af leyfilegum hámarksfjölda gesta, auk annarra skilyrða.
- Íþróttaæfingar og -keppnir barna og fullorðinna með og án snertinga í öllum íþróttum heimilar, án áhorfenda. Hámarksfjöldi fullorðinna verður 50 manns en fjöldi barna fer eftir sömu takmörkunum og í skólastarfi.
- Skíðasvæðum heimilt að taka á móti 50% af hámarksfjölda móttökugetu hvers svæðis.
- Sviðlistir, þar með talið kórastarf, heimilar með allt að 50 manns á sviði og 100 sitjandi gestum í hverju hólfi, auk annarra skilyrða.
- Hámarksfjöldi við athafnir trú- og lífsskoðunarfélaga áfram 30 manns en fjölgar í 100 manns við útfarir.
- Öllum verslunum heimilt að taka á móti 5 viðskiptavinum á hverja 10 m², þó að hámarki 100 manns, auk 20 starfsmanna í sama rými og viðskiptavinir.
- Skemmtistöðum, krám, spilasölum og spilakössum heimilt að hafa opið með sömu skilyrðum og veitingastöðum þar sem heimilaðar eru áfengisveitingar.
- Verklegt ökunám og flugnám með kennara heimilt.