Áhugaverðar breytingar fyrirhugaðar á Suðurgötu 50A

Eigandi fasteignar við Suðurgötu 50A á Akranesi hefur sótt um leyfi fyrir breytta notkun á húsinu.

Brauða – og Kökugerðin eða Kallabakarí var með starfsemi í þessu húsnæði um margra áratuga skeið. Húsið, sem er á einni hæð, var byggt árið 1966 og er rétt um 150 fermetrar að flatarmáli. Frá árinu 2018 hefur Leirbakaríið verið með list – og menningartengda starfsemi í þessu húsnæði. Leirbakaríið er með leigusamning á þessum stað fram í nóvember á þessu ári.

Í umsókninni um breytingar á Suðurgötu 50A er sótt um leyfi til að gera húsið að tveggja hæða fjölbýlishúsi með tveimur íbúðum. Einnig verði heimilt að hafa á 1. hæð við Suðurgötu undir verslun og þjónustu.

Byggð verði hæð úr timbri yfir hluta af núverandi húsi eins og meðfylgjandi uppdrættir sýna. Efri hæð verður inndregin frá hliðum sem snúa að Suðurgötu og Akursbraut.

Við Akursbraut er gert ráð fyrir verönd, sérafnotafleti fyrir íbúð 1. hæðar.

Ef þessar breytingar verða að veruleika verður fyrsta hæðin um 160 fermetrar og efri hæðin um 94 fermetrar.

Suðurgata 50A – horft frá Suðurgötu. Mynd/Skjáskot Já.is
Suðurgata 50A – horft frá Suðurgötu eftir fyrirhugaðar breytingar. Mynd/Skjáskot.
Suðurgata 50A – horft frá Suðurgötu eftir fyrirhugaðar breytingar. Mynd/Skjáskot.
Suðurgata 50A – horft frá Akursbraut eftir fyrirhugaðar breytingar. Mynd/Skjáskot.
Suðurgata 50A – horft frá Akursbraut eftir fyrirhugaðar breytingar. Mynd/Skjáskot.
Suðurgata 50A – horft frá Akursbraut. Mynd/Skjáskot já.is