Tvöfalt fleiri bóluefnaskammtar af Pfizer verða afhentir í júlí

Tvöfalt fleiri bóluefnaskammtar af Pfizer verða afhentir í júlí en áður var vænst. Þetta kemur fram í frétt á vef Stjórnarráðsins. Samtals er von á 244 þúsund bóluefnaskömmtum Pfizer í maí, júní og júlí.

Í maí berast 70.200 bóluefnaskammtar frá Pfizer, í júní 82.000 skammtar og í dag fékkst staðfest að í júlí má gera ráð fyrir 92.000 skömmtum frá framleiðandanum.

Eins og fram kom í frétt á vef Lyfjastofnunar 26. mars síðastliðnum hefur Lyfjastofnun Evrópu unnið að því að efla framleiðslugetu markaðsleyfishafa bóluefna gegn COVID-19 og hraða afhendingu þeirra. Liður í því var meðal annars að veita samþykki fyrir nýjum framleiðslustöðum bóluefnanna í Evrópu. Ætla má að þessar aðgerðir séu farnar að skila árangri, því afhending bóluefna frá Pfizer eykst nú jafnt og þétt.

Bóluefnadagatal heilbrigðisráðuneytisins og sóttvarnalæknis verður uppfært eftir helgina.