Gulu og svörtu sætin hverfa á braut og stúkan fær nýtt útlit með nýjum sætum

Tölvuverðar framkvæmdir eru fyrirhugaðar á áhorfendastúkunni á Akranesvelli á næstunni. Búið er að fjarlægja gulu og svörtu sætin sem hafa sett sterkan svip á útlit stúkunnar allt frá árinu 1995.

Ný sæti verða sett í stúkuna á allra næstu dögum og í haust hefst endurnýjun á þaki og viðhald á burðarvirki (stálbitum).

Stúkan við Akranesvöll var tekin í notkun árið 1995 og á þeim tíma var rými fyrir 700 áhorfendur í stúkunni. Árið 2006 var stúkan stækkuð til austurs og vesturs - og er pláss fyrir 1000 áhorfendur í stúkunni. 

Bæjarráð og bæjarstjórn Akraness hefur samþykkt rúmlega 20 milljóna kr. framlag í þetta verkefni og mannvirkjasjóður Knattspyrnusambands Íslands styrkir einnig verkefnið sem er þrískipt og er kostnaðaráætlun fyrir þessi verkefni um 32 milljónir kr.

Ný sæti verða sett upp í stúkunni á næstunni en búið er að fjarlægja gömlu sætin. Samkvæmt heimildum Skagafrétta verða nýju sætin hvít að lit og er það ákvörðun Akraneskaupstaðar. Áætlað er að búið verði að setja ný sæti í stúkuna í byrjun maí en kostnaður við það verkefni er áætlaður 10 milljónir kr.

Í haust eru tvö viðhaldsverkefni á dagskrá. Þaki stúkunnar verður lyft tímabundið og endurnýjað að hluta og er heildarkostnaður við það verkefni 11,5 milljónir kr. Klæðning og trévirki verður endurnýkað, sett verður nýtt járn á þakið og nýtt plexigler að hluta.

Stálvirki stúkunnar verður meðhöndlað í haust þar sem að ryð verður hreinsað af stálbitunum og þeir málaðir. Kostnaðaráætlun fyrir það verkefni er 10 milljónir kr.