Tæplega 2000 einstaklingar voru skimaðir vegna Covid-19 veirunnar í gær á Íslandi. Alls greindust 17 smit og þar af voru 8 einstaklingar ekki í sóttkví. Á landamærunum greindust 6 einstaklingar með Covid-19 smit en rétt um 230 sýni voru tekin á farþegum sem fóru í gegnum landamærin í gær. Þetta kemur fram á vef RÚV.
Ísland er ekki lengur grænt á litakóðunarkorti Sóttvarnastofnunar Evrópu sem uppfært var í dag. Ísland er nú skráð appelsínugult, en mið er tekið af smitum sem greinast innanlands og á landamærum.
Til þess að teljast grænt þarf nýgengi smita að vera undir 25 á hverja 100 þúsund íbúa. Nýgengi innanlandssmita er nú 29,2 en var 25,6 í gær.