Skagamenn nær og fjær eru hvattir til að taka stökkið fyrir Svenna – safna fyrir sérsmíðuðu reiðhjóli

Árgangur 1971 mun standa fyrir áhugaverðum viðburði þann 1. maí 2021 þar sem að markmiðið er að safna fé til að kaupa sérsmíðað reiðhjól fyrir Sveinbjörn Reyr Hjaltason sem er fæddur árið 1971.

Sveinbjörn slasaðist alvarlega fyrir einu ári eða 23. apríl 2020. Í tilkynningu frá árganginum eru Skagamenn nær og fjær hvattir til þess að taka þátt í áheitasöfnuninni.

Eins og áður segir á að safna fyrir reiðhjóli en slíkt reiðhjól kostar um 2 milljónir kr.

Áheitasöfnunin er öllum opin en árangur 1971 hefur sett sér það markmið að fá í það minnsta kosti 71 einstaklinga til að stökkva í sjóinn af smábátabryggjunum í Akraneshöfn þann 1. maí.

Í tilkynningu frá Club 71 kemur eftirfarandi fram:

Öllum verður frjálst að stökkva og munum við skora á einstaklinga, hópa, félagasamtök og fyrirtæki að sýna samtakamátt og heita á hina og þessa einstaklinga að stökkva. Stór hópur úr árgangi 71 mun stökkva og vonandi ýmsir aðrir. Þeir sem stökkva mega vera í sundfötum, venjulegum fötum, blautgalla, þurrgalla eða hverju sem er.

Við skipulag viðburðarins hefur verið tekið mið að gildandi sóttvörnum og verða þær í hávegum hafðar. Stökk-tímabilið er 5 klst, frá kl 10-15 og áhorfendum er ekki leyfilegt að safnast saman á bryggjunni heldur bent að aðrar bryggjur til að horfa en stokkið er af lágri bryggju sem er mjög miðsvæðis á hafnarsvæðinu og sést vel úr öllum áttum.

Samið hefur verið við Björgunarfélag Akraness um umsjón öryggismála á staðnum. Fulltrúar þeirra verða alltaf við hendina og fylgjast með þegar fólk stekkur en þeir gefa stökkvurum einnig leyfi til að stökkva. Stökksvæðið verður girt af og talið verður inn á svæðið í samræmi við sóttvarnarreglur. Bátur verður á staðnum á þeirra vegum þar sem stökkvarar lenda og fylgst verður með að allir stökkvarar komist upp úr sjónum. Rétt er þó að geta þess að allir sem stökkva gera það algerlega á eigin ábyrgð.

Faxaflóahafnir hafa gefið leyfi fyrir viðburðinum af sinni hálfu sem og bæjarstjórinn á Akranesi. Viðburðurinn er haldinn í samvinnu við Björgunarfélag Akaness og lögreglu. Sóttvarnir Vesturlands hafa verið upplýstar um málið.

Við þökkum fyrirtækjum, einstaklingum, Björgunarfélagi Akranes og öllum öðrum fyrir stuðninginn!

Reiknisnúmer:
552-26-3071
kt: 540710-0150

Hér má sjá myndband af reiðhjóli af svipaðri gerð og safnað er fyrir.

Club71 er félagsskapur sem staðið hefur fyrir ýmsum góðgerðarmálum og menningarviðburðum á Akranesi síðustu árin. Ber þar hæst Þorrablót Skagamanna sem hópurinn kom í gang og sá um í 10 ár en þessi viðburður hefur gefið af sér nokkrar miljónir árlega sem runnið hafa óskipt til góðgerðar- og íþróttamála á Akranesi. Einnig mætti nefna Brekkusöng bæjarhátíðarinnar Írskra daga sem er bæjarhátíð Akranes, en þennan viðburð sækja þúsundir manna. Ýmsir einstakir viðburðir hafa verið haldnir á vegum félagsskaparins í gegnum tíðina en hópurinn fékk Menningarverðlaun Akraneskaupstaðar árið 2017.