SkagaTV: Minkur á harðahlaupum við Ketilsflöt

„Ég sá bara eitthvað svart dýr á ferðinni í grasinu og að sjálfsögðu hélt ég að þetta væri köttur. Þegar hann byrjaði að hlaupa yfir götuna þá sá ég að þetta var minkur. Ég veit ekki alveg hvað varð um hann eftir að við keyrðum þarna framhjá,“ segir Ingimar Elfar Ágústsson sem tók upp þetta áhugaverða myndband í gær við Ketilsflöt á Akranesi.

Ingimar Elfar er í góðri æfingu við að taka upp myndbönd enda er hann einn af fjölmörgum sjálfboðaliðum sem sjá um að taka upp íþróttaviðburði fyrir ÍATV.

Eins og sjá má á myndbandinu er um að ræða mink, líklega af marðarætt sem er sem er stærsta ættin innan ættbálks rándýra . Sá minkur sem býr á Íslandi nefnist Mustela vison og lifir hann villtur í Norður-Ameríku.

Ameríski minkurinn er vinsæll og mikið notaður í feldiðnaði og hefur tegundin verið flutt heimshorna á milli til slíkrar ræktunar, þeir fyrstu komu til Íslands haustið 1931 frá Noregi. Minkar hafa víða sloppið út í náttúruna og virðast þeir hafa ótrúlega aðlögunarhæfni, enda er tegundin nú útbreidd um mestalla Evrópu, þar með talið á Íslandi.