Bæjarstjórn Akraness skorar á heilbrigðisráðherra og fjármála- og efnahagsráðherra að bregðast nú þegar við þeirri stöðu sem uppi er í málefnum hjúkrunar- og dvalarheimila sem rekin eru á daggjöldum. Þetta kemur fram í ályktun bæjarstjórnar sem samþykkt var í gær.
Á dögunum skilaði verkefnastjórn skýrslu með greiningu á rekstrarkostnaði hjúkrunarheimila sem rekin eru á daggjaldagreiðslum. Þar kemur fram að vegna vanfjármögnunar ríkisins á árunum 2017-2019 voru 87% heimila rekin með halla og nemur heildarupphæðin 3,5 milljörðum.
Bæjarstjórn Akraness telur með öllu ólíðandi að ekkert verði aðhafst á þessu ári til að styrkja rekstur hjúkrunarheimila eins og skilja mátti á yfirlýsingum heilbrigðisráðherra í fjölmiðlum enda mun rekstur þeirra þyngjast verulega vegna samþykktra kjarasamninga og styttingu vinnuvikunnar.
Bæjarstjórn Akraness skorar á heilbrigðisráðherra og fjármála- og efnahagsráðherra að ráðast nú þegar í aðgerðir til að leiðrétta stöðu hjúkrunarheimila og koma jafnframt á virku samtali milli ríkis og sveitarfélaga um framtíðar fyrirkomulag þjónustu við aldraða og horft verði til tækifæra á lengri búsetu í eigin húsnæði, samspil heimahjúkrunar og heimaþjónustu og sveigjanlegri dagdvöl fyrir eldra fólk.