Kvennalið ÍA úr leik í Mjólkurbikarnum eftir hörkuleik gegn liði Augnabliks

Kvennalið ÍA í knattspyrnu lék gegn liði Augnabliks í Mjólkurbikarkeppni KSÍ í gær. Bæði liðin leika i næst efstu deild en Augnablik er samstarfsklúbbur Breiðabliks.

Varnarmaðurinn Anna Þóra Hannesdóttir kom ÍA yfir á 20. mínútu með góðu skallamarki eftir fast leikatriði. Augnablik jafnaði metin tíu mínútum síðar og staðan var jöfn í hálfleik.

Þegar fimmtán mínútur voru liðnar af síðari hálfleik komst Augnablik yfir. Dagný Halldórsdóttir jafnaði leikinn fyrir ÍA skömmu síðar og skoraði hún einnig með því að skalla boltann í netið eftir fast leikatriði. Á 70. mínútu komst Augnablik yfir á ný og í kjölfarið bætti liðið við fjórða markinu og tryggði sér 4-2 sigur í spennandi leik.

Lokatölur leiksins gefa ekki alveg rétta mynd af gangi leiksins. ÍA var með boltann í 49% af leiknum og fékk liðið alls 8 hornspyrnur en lið Augnabliks fékk 1 hornspyrnu.

Lið ÍA leikur sinn fyrsta leik í Lengjudeildinni um næstu helgi gegn liði Gróttu á útivelli á Seltjarnarnesi – þann 6. maí.