Samtakamátturinn ótrúlegur! – Mögnuð niðurstaða áheitasöfnunar fyrir Svenna

Síðasta laugardag, 1. maí 2021, fór fram viðburðurinn „Stokkið fyrir Svenna“ sem var áheitasöfnun sem fram fór í Akraneshöfn. Það var Árangur 71 á Akranesi (Club 71) sem stóð fyrir viðburðinum. Í tilkynningu frá skipulagsnefndinni kemur fram að söfnunin hafi farið langt fram úr væntingum og samtakamáttur samfélagsins á Akranesi og víðar hafi komið í ljós.

Tilgangurinn var að safna áheitum fyrir einn úr árgangnum, Sveinbjörn Reyr, sem lenti í alvarlegu slysi í fyrra. Markmiðið var að ná að safna þremur milljónum til kaupa á sérstöku rafhjóli og fá amk 71 stökkvara til að stökkva í sjóinn af smábátabryggjusvæðinu á Akranesi og var öllum velkomið að stökkva.

Öryggismál voru í höndum Björgunarfélags Akraness.Söfnuninni er nú lokið og voru viðbrögð langt framar björtustu vonum.

Alls stukku 177 stökkvarar í sjóinn í blíðskaparveðri í Akraneshöfn.

http://localhost:8888/skagafrettir/2021/05/02/stokkid-fyrir-svenna-myndasyrpa-fra-gisla-rakara/

Fyrsta stökkið tók Þórdís Kolbrún ráðherra en síðasta stökkið tók Gísli Einarsson sjónvarpsmaður í rauðum jakkafötum. Yngsti stökkvarinn var 5 ára.

Ekki nóg með það heldur eru aðstandendur söfnunarinnar og fjölskylda Sveinbjörns hreint orðlaus eftir að söfnunarreikningnum hefur verið lokað. Markmiðið náðist og vel það en alls söfnuðust kr. 8.102.000.

Þessi niðurstaða söfnunarinnar er hreint mögnuð. Hún ber vott um einstaka velvild í garð hins glaðbeitta Svenna en jafnframt undirstrikar ótrúlegan samtakamátt í samfélagi eins og Akranesi þó framlög í söfnunina hafi borist víðar að, en meðal annars kom veglegt framlag frá árgangi 71 á Selfossi.

Næstkomandi föstudag fer Sveinbjörn í aðgerð sem mun hafa töluverð áhrif á hreyfigetu hans til framtíðar.

Þegar niðurstaða aðgerðarinnar liggur fyrir er loks hægt að leggja inn endanlega pöntun á smíði hjólsins sem er rafknúið og aðlagar sig hreyfifærni og hreyfigetu eigandans.

Söfnunarféð verður svo nýtt til kaupa á hjólinu og flutningi þess til landsins en það er sérsmíðað í Bandaríkjunum og verður aðlagað að þörfum Sveinbjörns.

Jafnframt hefur verið ákveðið að kaupa sérsmíðaða kerru aftan í bíl til að hægt sé að flytja hjólið milli staða.

Sveinbjörn hefur í viðtölum undanfarið lýst vel þeim miklu áhrifum sem slysið hefur haft á líf hans og í raun fjölskyldunnar allrar. Hann er lamaður frá brjóst með takmarkaða hreyfigetu í fingrum. Hann hefur nánast þurft að læra allt upp á nýtt varðandi daglegt líf nema kannski bara að tala.

Ýmsar breytingar þarf að gera á heimilinu, tekjutap er gríðarlegt og Sveinbjörn mun þurfa að nýta sér sérsmíðaða bíla í framtíðinni.

Þeir fjármunir sem eftir eru að loknum hjólakaupunum munu nýtast fjölskyldunni vel til að mæta þessum útgjöldum og breyttu aðstæðum.

Síðast en ekki síst vilja Árgangur 71 og fjölskylda Sveinbjörns senda Björgunarfélagi Akraness kærar þakkar kveðjur en ekki síður að þakka þann einstaka hlýhug og samhug sem einstaklingar, fyrirtæki, vinahópar og vinnustaðir hafa sýnt í tengslum við söfnunina, hvort sem það er með því að stökkva, leggja inn framlög í söfnunina eða gefa efni eða vinnu sína til að gera þetta allt að veruleika.

Hafið heiður og þakkir fyrir ykkar merka framlag!

Árgangur 71 – Sveinbjörn og fjölskylda
Akranes 3. maí 2021.