1. maí dregur strik í sandinn og markar breytingu í frjálsræði og tímastjórnun barna

Aðsend grein frá Ungmennaráði Akraness:


Fyrsti dagur maímánaðar er oftar en ekki góður dagur. Frídagur verkamanna. Kunnum við öll að meta frídaga. Alþjóðlegur frídagur verkafólks hefur líka lengi vel haft mikla þýðingu fyrir börn á Íslandi. Þennan dag breytast neflilega útivistarreglurnar. Frá og með 1.maí mega 12 ára börn og yngri lengst vera úti til kl.22:00 og 13 – 16 ára lengst vera úti til miðnættis.

Þessum breytingum fylgir hækkandi sól, léttari klæðnaður, oft aukin útivera, aukin samvera barna í jafningjahópi og ótal tækifæri til þess að lifa og læra. Allt geta þetta verið mjög jákvæðir þættir sem hjálpa börnum og ungmennum að móta sig og sitt í samfélagi með öðrum. Byggja upp sjálfsmynd, félagslega hæfni, eignast vini og gera mistök.

„Mistök eru til að læra af þeim“ er setning sem öll börn hafa heyrt frá unga aldri. Fyrsta skref í átt að lærdómi. Mistök eru oft mjög góð og getur haft í för með sér góðar afleyðingar, þó við sjáum það oft ekki alveg strax. Mistökin sem við gerum eru oft á tíðum valkvæð og því er mikilvægt að gera sér grein fyrir því að ákvarðanirnar eru barnanna að taka. Ákvarðanartakan er bara oft undir áhrifum einstaklinga sem viðkomandi lítur upp til og sér sem fyrirmynd.


Fyrirmyndir eru svo ótrúlega mikilvægar og þær geta verið allskonar. Flestir eiga sér fyrirmynd. En færri gera sér grein fyrir því að þeir séu mögulega fyrirmynd einhverra annara. Forvarnargildi góðra fyrirmynda getur verið gífurlegt. Það þurfa ekki allar fyrirmyndir að hafa áhrif á massa allra barna og ungmenna, heldur er mikilvægt að flestir geti fundið samnefnara og speglað sig í góðri fyrirmynd.


Það sem við gerum frá degi til dags staflast saman í þá stóru mynd sem við erum að mála. Það hefur allt saman áhrif, bæði góð og slæm. Við erum alltaf að leitast eftir að skilgreina hver við séum, hvernig aðrir sjá okkur, hvort sem það séu vinirnir, samfélagið sem við tilheyrum eða fjölskyldan.


Fjölskyldan spilar þar stórt hlutverk. Þar þurfa börn stuðningsnet sem getur ekki slitnað þó á það reyni. Börn þurfa á fjölskyldu að halda sem setur sig inn í hlutina, er þátttakandi í lífi barnanna, stendur ekki á sama og fylgist með. Ekki bara þegar mikið á lætur, heldur alltaf. Að finna fyrir því að haldið sé við bakið á manni án þess þó að manni sé endilega ýtt er gulls ígildi.


Samvera fjölskyldunnar er ein besta forvörnin og því geta foreldrar og/eða forsjáraðilar sinnt ómetanlegu forvarnarstarfi með samvistinni einni og sér. Það þarf ekki alltaf að vera stórt, bara vera til staðar og vera saman. Njóta alls þess besta sem fjölskyldan hefur upp á að bjóða. Forvarnargildið er bara það gott.

Ef við reynum að svara spurningunni um hvort 1. maí sé besti dagur ársins, þá má horfa á það út frá mörgum sjónarmiðum. 1.maí er snilld, en aðfangadagur er líka snilld og afmælisdagar margir hverjir frábærir. En 1.maí dregur strik í sandinn, markar breytingu í frjálsræði og tímastjórnun barna. Það er snilld.

Guðjón Snær Magnússon, formaður ungmennaráðs
Ylfa Örk Davíðsdóttir, fulltrúi ungmennaráðs
Ívar Orri Kristjánsson, starfsmaður ungmennaráðs