Naumt tap gegn Gróttu hjá kvennaliði ÍA í Lengjudeildinni

Kvennaliða ÍA lék sinn fyrsta leik í Lengjudeildinni í gær á Íslandsmótinu í knattspyrnu.

Leikurinn fór fram á heimavelli Gróttu á Seltjarnarnesi – en liðinu er spáð efstu sætunum í næst efstu deild.

Leikurinn var jafn og spennandi eins og búist var við. Védís Agla Reynisdóttir skoraði fyrsta mark leiksins á 17. mínútu og kom ÍA þar með yfir.

Skagaliðið fékk fín færi í fyrri hálfleik og var mun líklegra til þess að bæta við marki en heimaliðið að jafna metin.

Í síðari hálfleik náði Grótta að jafna með langskoti á 58. mínútu frá Tinnu Jónsdóttur.

Rétt fyrir leikslok tryggði María Jónsdóttir Gróttu sigur með góðu langskoti.