Einsamall á Hvannadalshnjúk! – „Aldeilis ekki örmagna né í andlegu ójafnvægi“

Skagamaðurinn Ólafur Hallgrímsson skrifaði áhugaverðan pistil á fésbókarsíðu sína í dag þar sem hann rekur eftirminnilega ferð á hæsta tind Íslands – Hvanndalshnjúk á Öræfajökli. Ólafur er hæstánægður með að hafa náð á toppinn en ferðin var eins og lesa má hér fyrir neðan mikið ævintýri og er Ólafur afar ósáttur við fararstjóra hópsins sem hann hugðist ganga með á toppinn.


Eins og mörg ykkar vita þá gekk ég á hæsta tind Íslands Hvannadalshnjúk á Öræfajökli sem er hluti af stærsta jökli Evrópu „Vatnajökli“ þann 2. maí síðastliðinn.

Forsaga málsins er sú að fyrir rúmum fjórum árum eða haustið 2016 hætti ég að sigla sem skipstjóri erlendis.. Ég ákvað þá að láta gamla æskudrauma rætast sem voru að ganga á fjöll og alveg sérstaklega að sigrast á hæsta tindi Íslands Hvannadalshnjúk.

Ég sá auglýsingu frá gönguhópi sem heitir Fjallavinir og setti mig í samband við forsvarsmann hans Þórð Marelsson. Ég spurði hann hvort hann hygðist plana göngu á Hvannadalshnjúk um vorið vegna þess að draumur minn var að standa á hæsta tindi Íslands áður enn ég yrði sextugur en það yrði 9 ágúst sama ár. Hann ( Þórður Marelsson) sagði strax að það yrði lítið mál að setja á dagskrá göngu á Hvannadalshnjúk þá um vorið.

Ég gekk síðan með Fjallavinum allan veturinn á hin ýmsu fjöll og þar á meðal bæði á Snæfellsjökul og Eyjafjallajökul. Allt gekk þetta vel og ég fór létt með að sigra þessi fjöll.

Þegar sumarið nálgaðist og ég var farinn að bíða spenntur eftir ferðinni á Hvannadalshnjúk þá bara var hætt við hana og ég fékk aldrei neina skýringu á því.

Ég hélt samt aðeins áfram að ganga með þeim um sumarið og t.d fórum við hjónin með Fjallavinum bæði Leggjabrjót og eins inn að Grænahrygg á Landmannaafrétti.

Eftir þetta missti ég áhugann á því að ganga með Fjallavinum og alveg sérstaklega vegna þess að mér þótti fararstjórnin svo léleg. Mér fannst ferðirnar snúast um að þjóta en ekki njóta og Þórður var enginn maður (kannski vegna kunnáttuleysis) til að segja ferðafélögunum frá því sem fyrir augu bar. Það var frekar að Fríður eiginkona hans reyndi að bæði fræða fólk og einnig leiðbeina við teygjur og slíkt fyrir og eftir göngur enda menntaður íþróttakennari og yndisleg manneskja.

Til þess að gera langa sögu stutta þá fékk ég skilaboð frá Þórði ( Fjallavinum) síðastliðið haust þar sem hann sagði mér að hann væri búinn að setja á göngu á Hvannadalshnjúk 1. maí næsta vor ( sem breyttist vegna veðurs í 2.maí ) og að hann væri búinn að skrá mig í gönguna.

Ég var á þeim stað í haust að ég fékk verki í báðar ristarnar og var ráðlagt af sjúkraþjálfara að taka mér frí frá göngum um haustið. Ég fór síðan til sjúkranuddara sem kom mér á lappirnar aftur. Eftir áramótin er ég búinn að labba flesta daga 8 km hring í Elliðaárdalnum auk þess að fara nokkrar ferðir upp að steini á Esjunni og t.d tvisvar í röð í eitt skiptið. 

Laugardaginn 1 maí lögðum við Bryndís af stað austur full tilhlökkunar. Ég yfir göngunni sem loks var komið að og hún sem ætlaði að slappa af niðri og taka síðan á móti mér. Ég var búinn að fjárfesta í nýjum bakpoka, göngubuxum, jöklabroddum og fleiru auk þess að við pöntuðum 2. nætur á hóteli. Ekkert skyldi til sparað að láta drauminn rætast sem loksins var komið að.

Við hittum gönguhópinn við rætur Sandfells um kl 0330 og þar hittum við einnig í fyrsta skiptið 4-5 unga jöklaleiðsögumenn sem Þórður hafði ráðið til þess að fara með og einn þeirra Óskar skyldi vera yfir leiðsögumaður.

Fór hann í stuttu máli yfir dagskrána og hófum við síðan gönguna kl 0345. Í ca 300 m hæð er lækur þar sem við stoppuðum og fylltum á vatnsbrúsa og slíkt og síðan var haldið áfram.

Leiðin þarna er brött á köflum og í svoleiðis aðstæðum verð ég andstuttur og tók því þess vegna rólega og sérstaklega vegna þess að löng leið var fyrir höndum auk þess sem ég stoppaði til þess að taka myndir. Í tæplega 1100 m hæð er svokallaður línusteinn en þar hefst brekkan endalausa sem kölluð er en það er samfelld snjó (ís) brekka sem nær alveg upp á brún ketilsins (öskjunnar) í 1800 m hæð.

Ég var með þeim síðustu og þegar ca 50 m eru eftir upp að línusteininum kemur Óskar á móti mér og gengur með mér síðasta spölinn og segir mér að hann hafi verið að fylgjast með mér og hann treysti mér ekki til að fara lengra ég sé of hægur. Bjarni (einn af leiðsögumönnum Þórðar) ætli bara í þessa hæð og hann muni fylgja mér niður og einnig konu sem hafði kvartað um í bakinu og færi niður aftur. Ég skyldi það svo að hún hefði beðið um það en annað átti eftir að koma í ljós. Ég sagði þessum fararstjóra að þetta væri allt í lagi fyrst þeim lægi svona á. Þau skyldu bara drífa sig ég kæmi þetta bara á eigin vegum á eftir þeim á mínum hraða.

Hann fór með þetta og þeir Þórður stungu eitthvað saman nefjum. Síðan kemur Þórður til mín og segir að ég fara ekki einn á jökulinn ég fari niður með Bjarna og annars yrði hringt bæði á lögreglu og björgunarsveit. Ég væri þarna á þeirra ábyrgð sem virtust nú vera helstu áhyggjur hans. Ég lýsti því síðan yfir í heyranda hljóði að ég segði mig úr gönguhópnum og væri þarna á eigin ábyrgð. Fríða kona Þórðar kom líka að tala við mig og talaði um að ég gæti ekki gert þeim þetta að halda áfram einn eins og það væri aðalmálið álits hnekkur fyrir þau?

Þau sem eftir voru í gönguhópnum gerðu sig síðan klár í línur, konan snéri við ein hún mátti ekki fara upp en hún mátti fara niður úr 1100 m hæð alein og illt í bakinu. Við Bjarni sátum þarna við steininn og ég íhugaði mína stöðu. Átti ég að gefast upp í 1100 m hæð og láta þennan langþráða draum fjara út ? Fyrirgefið mér en ég er bara ekki þannig gerður. Ég vissi að ég gæti þetta alveg á mínum hraða, veðurspáin var mjög góð út yfir allan daginn og auk þess 126 vaskar konur í fjallinu sem höfðu lagt af stað í mörgum hópum á undan okkur.

Að vandlega íhuguðu máli og með mína reynslu og styrk ákvað ég að láta á það reyna hvort ég kæmist þetta ekki einn og hjálparlaust. Ég setti ísbroddana á skóna setti á mig bakpokann og sagði Bjarna að ég ætlaði að rölta af stað upp í brekkuna en þá voru hin löngu farin.

Mér þykir leiðinlegt til þess að vita ef Bjarni beið lengi eftir mér í stað þess að fylgja konunni niður. Bjarni er góður drengur sem ég þekki bara að góðu einu. Í miðri endalausu brekkunni náði ég síðan aftasta hópi Fjallavina og stoppaði og beið vegna þess að ég var ekki lengur með þeim og vildi þess vegna ekki vera of nærri. Þetta skeði tvisvar en þá missti ég þolinmæðina og fór fram úr þeim.

Þessi hópur (lína) sem fékk n.b. að halda áfram komst síðan aldrei á toppinn og ekkert var hugsað um að hvetja þau þangað.

Þegar ég fór að nálgast ketilbrúnina fór ég að byrja að mæta konuhópunum rjóðum og sællegum og á meðan ég óskaði þeim hverri á fætur annarri til hamingju með afrekið þá undruðust þær hvað ég væri að gera þarna einn á ferð en óskuðu mér góðrar ferðar.

Þarna hafði ég þurft að klofa yfir tvær litlar sprungur og tvær aðrar áttu eftir að verða á vegi mínum. Gígur (ketill) Öræfajökuls er nokkurra km2 jafnslétta og gengið er í boga um 3 km eftir henni að rótum Hvannadalshnjúks.

Á þeirri leið mæti ég kvennahópunum hverjum á eftir öðrum og það sem þær ljómuðu af stolti.

Undir rótum Hnjúksins náði ég restinni af Fjallavina hópnum og þá kom hin skrítna hjarðhegðun í ljós. Ekkert þeirra talaði við mig eða virti mig viðlits. Ég settist þarna til hliðar og borðaði nesti og beið eftir því að þau legðu af stað á tindinn. Þegar þau voru öll farin þá skyldi ég bakpokann og stafina eftir( eins og margir aðrir) og hélt í humátt á eftir þeim síðasta spölinn vopnaður ísexi.

Það var ótrúleg sigurtilfinning að ganga síðustu metrana upp á hæsta topp landsins okkar. Ég gekk í gegnum hópinn þangað til ég var einn og þá öskraði ég YES nokkru sinnum.

Farastjórarnir ungu sögðust dáðst að mér og einn sagðist taka ofan hatt sinn fyrir mér. Engin kom til mín nema Þórður til þess að skammast. Talaði um ábyrgðarleysi og að ég væri að stefna lífi björgunarsveita í hættu kæmi eitthvað fyrir. Ég vissi að þetta er ekki svo hættuleg leið á þessum árstíma bara löng og seinfarinn og kannski ekki skemmtilegt að fara þetta einn og yfirgefinn. Ég er viss um að Leifur Esjuvinur minn er í meiri hættu í sínu príli upp á Þverfellshorn um hávetur. Ég ætlaði að leggja höndina á öxl Þórðar og tala við hann enn hann sló hana af reiður en ég sagði honum að hann hefði lofað því fyrir fjórum árum að fara með mig þarna upp. Hann stóð ekki við það þá og heldur ekki núna.

Einn af ungu erlendu fararstjórunum bauð mér að koma í línu með þeim niður en að íhuguðu máli og við að heyra pískur þeirra um ábyrgðarleysi þá afþakkaði ég pent.

Ég fór einn upp og ég skyldi fara einn niður.

Á toppnum kom maður konunnar“ sem vísað var niður“ til mín og óskaði mér til hamingju með þetta allt saman og við tókum myndir hvor fyrir annan.

Þá sagði hann mér mjög ósáttur að konunni hans hefði verið vísað niður hún hefði ekki ákveðið það sjálf heldur hefði hún viljað fara í hæga línu. Hefði ég vitað þetta þá hefði ég boðið henni að fara með mér.

Ég snéri síðan fljótlega niður af Hnjúknum aftur sótti bakpokann og hélt síðan áfram niður.

Ég var á undan meira en helmingnum af Fjallavinum aftur niður á bílastæði þar sem Bryndís mín tók á móti mér með kostum og kynjum.

Enginn úr hópnum kom til mín þarna niðri nema konan sem var látin snúa við og maðurinn hennar þau skáluðu við mig og samfögnuðu.

Þegar við keyrðum í burtu þá stoppuðum við hjá Óskari yfirfararstjóra og ég skammaði hann aðeins fyrir að dæma mig úr leik án þess að þekkja mig og mína reynslu.

Hann viðurkenndi mistökin og sagðist dáðst að framtaki mínu og að hann skyldi endurskoða mat sitt á fólki í framtíðinni. Hann sagði að þessi ganga mín yrði það síðasta sem hann hugsaði um þegar hann legðist á koddann um kvöldið.

Það skal tekið fram honum til varnar að hann fékk ekki eitt einasta kredit frá Þórði um mig eða mína getu.

Þau hjónakorn Þórður og Fríður hafa ekki talað við mig síðan en Þórður sendi þetta bréf (kemur fyrir neðan) til hópsins eftir að hann hafði útilokað mig frá hópnum og Facebook. 

Mér áskotnaðist samt bréfið og læt það hér fylgja með vegna þess að það er ástæða þessara skrifa.

Ég hafði ætlað mér að láta satt kyrrt liggja og bara vera ánægður með sjálfan mig fyrir að sigrast bæði á mótlætinu og hæsta tindi Íslands.

Fararstjórar kvennahópsins sáu til þess að þær komust allar upp og þær gerðu það á 14 til 17 tímum. Það finnst mér og fleirum rétta viðhorfið og öðrum til eftirbreytni. Ég fór þetta á 14 tímum og 40 mínútum.

Að leggja ekki metnað sinn í að koma öllum á tindinn er mér óskiljanlegt. Ef við snúum þessu við og hann hefði hringt í mig fyrir fjórum árum og langað á Hnjúkinn þá hefði ég gert allt sem í mínu valdi stæði til þess að koma honum þangað. Allavega finnst mér fjallaferðir ættu frekar að snúast um fróðleik og tilsögn en hanakamb og rauðan varalit. 

Ég er með ótakmörkuð skipstjórnarréttindi og hef starfað sem sjómaður og skipstjóri allt mitt líf auk þess að vera háskóla menntaður leiðsögumaður.

Ég skrifa þetta vegna ósannra fullyrðinga og aðdróttana Þórðar í minn garð. Ég var sko aldeilis ekki örmagna né í andlegu ójafnvægi þarna í 1100 metra hæð eins hafði ég alls ekki uppi stór orð og ég íhuga nú í alvöru að fara í meiðyrðamál til þess að hnekkja þessum ósannindum.

Eins og ég sá þetta fyrir mér þá voru tveir kostir í stöðunni. Héldi ég áfram upp þá yrði Þórður reiður en snéri ég við þá yrði ég reiður. Mér fannst betra að Þórður yrði reiður.

Þetta er búið að liggja þungt á mér en eins og ég valdi að fara upp frekar en niður þá vel ég að skrifa þennan pistil.

Rétt skal vera rétt ég stend með sjálfum mér.

Bréf Þórðar.

Sæl verið þið
Því miður þurfti að snúa göngumanni við í 1100 m hæð en viðkomandi brást mjög illa við, virtist ekki í andlegu jafnvægi og hafði uppi stór orð við okkur bæði á jöklinum og eins þegar niður var komið, en það var mat allra jöklaleiðsögumanna og eins mitt, enda viðkomandi líkamlega úrvinda í 1100 m. Þessi aðili sagði sig þar úr hópnum okkar og tók hvorki ráðleggingum eða leiðbeiningum leiðsögumanna og sagðist ætla upp einn síns liðs. Þetta þurfti strax að tilkynna til lögreglu að maður væri einn á ferð á jöklinum og færi ekki eftir fyrirmælum jöklaleiðsögumanna, enda beinlínis lífshættulegt. Jafnframt setti þetta mjög marga í verulega erfiða og leiðinlega stöðu. Fullkomið ábyrgðarleysi af hálfu viðkomandi aðila.