Ungir menn á uppleið og skemmtileg Hvalfjarðartenging í körfunni

Körfuboltinn er í sókn á Akranesi og yngri flokkar félagsins eru margir hverjir í fremstu röð á landsvísu. Um síðustu helgi léku strákar úr ÍA sem eru í 7. bekk eða yngri síðustu leiki sína á tímabilinu. Liðið var sigursælt á þessu tímabili og tapaði aðeins einum leik með minnsta mun – einu stigi.

Í tilkynningu frá Körfuknattleiksfélagi Akraness segir að liðið sé skipað ungum mönnum á uppleið og framtíðin er sannarlega björt. Þar kemur einnig fram skemmtilegt tenging við Hvalfjarðarsveit en þrír leikmenn liðsins koma úr Hvalfjarðarsveitinni. Árni frá Hagamel , Heimir frá Beitistöðum og Marteinn frá Leirárgörðum.

Það hefur lengi verið sterk tenging milli Körfuknattleiksfélags ÍA og Hvalfjarðarsveitar.

Fyrsti skólastjóri Heiðarskóla var Sigurður R. Guðmundsson íþróttakennari og starfaði hann við skólann í yfir 20 ár ásamt því að reka íþróttaskóla frá 1968-1981. Hann lagði mikla áherslu á fjölbreytt íþróttastarf eins og knattspyrnu, körfubolta, sundi, frjálsum og borðtennis.

Körfuknattleikur á Akranesi naut góðs af þessu þar sem drengir úr Heiðarskóla voru máttarstólpar í liðið ÍA á upphafsárunum.

Þar fremstir í flokki voru bræðurnir Ólafur Óskarsson og Magnús Óskarsson frá Beitistöðum, Þorvarður Magnússon frá Belgsholti. Sigurður Björnsson frá Lambhaga og Guðjón Böðvarsson frá Kringlumel. Frændurnir Sigurður Elvar Þórólfsson og Jón Þór Þórðarson eiga ættir að rekja til Vogatungu.

Uppúr 1990 bættust við frændurnir Guðmundur, Guðjón og Arnfinnur frá Bjarteyjarsandi og bræðurnir Hörður og Einar Karl frá Lyngholti. Síðan eru það bræðurnir Magnús, Fannar, Ómar og Þorsteinn frá Ósi og bræðurnir Þorleifur, Jón og Ásbjörn frá Skorholti.

Fleiri mætti telja þarna til og ljóst að rætur körfuboltans á Akranesi liggja sterkt í Hvalfjarðarsveit. Þaðan hafa komið margir góðir gæðingar og vonandi verður áfram svo um ókomna tíð.