Elkem og Knattspyrnufélag Akraness hafa gert með sér samstarfssamning til þriggja ára.
Elkem mun beina kastljósinu að kvennastarfi félagsins og í samninginum kemur fram að Elkem mun bjóða öllum á heimaleiki kvennaliðs ÍA í sumar í Lengjudeildinni.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá Knattspyrnufélagi Akraness.
Kvennalið ÍA leikur í næst efstu deild á Íslandsmótinu, Lengjudeildinni, en liðið er að mestu skipað ungum og efnilegum leikmönnum sem eiga framtíðina fyrir sér.
Álfheiður Ágústsdóttir, forstjóri Elkem og Gunnar Viðarsson innkaupastjóri fyrirtækisins skrifuðu undir samninginn ásamt formanni Knattspyrnufélags ÍA, Eggerti Herbertssyni.