„Ég hef verið með skýr markmið frá því ég byrjaði í fótbolta og þrátt fyrir meiðsli og svo veikindi komi upp hjá mér þá breytir það ekki markmiðum mínum. Ég er ennþá staðráðinn í að ná þeim og ég verð enn grimmari að ná þeim eftir slíkar fréttir. Á næstu mánuðum verður það númer eitt tvö og þrjú að horfa nógu oft á Rocky myndirnar. Þá eru engar líkur á að ég missi viljann til að ná enn lengra,“ segir Oliver Stefánsson leikmaður sænska úrvalsdeildarliðsins Norrköping. Hinn 19 ára gamli varnarmaður þarf að grafa djúpt í þolinmæðisskúffuna á næstu mánuðum vegna veikinda en hann greindist með blóðtappa nýverið.
Oliver gekk til liðs við Norrköping í lok ársins 2018 en hann hefur glímt við erfið meiðsli og veikindi á undanförnum misserum. Oliver segir að hann hafi fundið fyrst fyrir undarlegum einkennum á æfingu nýverið þar sem hann varð skyndilega orkulaus og fékk hjartaverk.
„Þjálfararnir tóku mig af æfingunni og ég hvíldi í tvo daga á eftir. Þegar ég byrjaði að æfa þremur dögum síðar fór vinstri handleggurinn að bólgna og þrútna. Höndin varð mun dekkri en vanalega og æðarnar urðu mjög sýnilegar. Þegar þetta kom í ljós var ég sendur á bráðamóttökuna með lækni liðsins. Ég fór í ýmsar rannsóknir og myndatökur yfir nóttina. Niðurstaðan var að ég er með sjaldgæfa tegund af blóðtappa sem hafði myndast við hálsinn og viðbeinið,“ segir Oliver en framundan eru 6 langir mánuðir í endurhæfingu.
„Ég fór strax á blóðþynningarlyf og verð á slíkum lyfjum næstu mánuðina. Ég má lítið sem ekkert gera á meðan - og það verður lítið um fótbolta næstu sex mánuði. Ég var ekkert að hoppa af gleði að fá þessar fréttir - sérstaklega þar sem ég var nýkominn í gang eftir að hafa verið lengi frá vegna meiðsla. Ég tók einn dag í að svekkja mig og síðan kom nýr dagur og þá þýðir ekkert að vera að dvelja yfir þessu. Ég mun tækla þetta verkefni og er staðráðinn í því að ná þeim markmiðum sem ég hef sett mér,“ segir Oliver Stefánsson við skagafrettir.is.
Ísak Örn Elvarsson skrifar: