Það var frábær stemmning í Tónbergi miðvikudaginn 12. maí þegar fram fóru vortónleikar Skólakórs Grundaskóla og söngkonunnar Sölku Sólar. Tónleikarnir hafa verið á dagskrá frá því vorið 2020 en ítrekað þurft að fresta þeim vegna Covid ástandsins.
Það var því langþráð stund hjá kórfélögum að fá loksins að stíga á svið og syngja fyrir fjölskyldur og vini, en vegna takmarkana varð uppselt á tónleikana strax í forsölu og ekki hægt að opna á almenna sölu.
Kórinn æfir í tveimur aldursskiptum hópum og sungu þeir fyrst í sitt hvoru lagi og svo saman í lokin.
Salka Sól tók nokkur lög með krökkunum og söng einnig Lou Reed lagið „Perfect day“ og heillaði alla upp úr skónum.
Það gerðu kórkrakkarnir svo sannarlega líka, með glaðlegri framkomu og kraftmiklum og fallegum söng.
Það var Valgerður Jónsdóttir stjórnandi kórsins sem sá um stjórn og skipulag tónleikanna og Flosi Einarsson lék á píanóið.