Jónína Björg Magnúsdóttir hefur á undanförnum árum staðið í fararbroddi fyrir flest allt sem viðkemur keiluíþróttinni á Akranesi. Jónína og maður hennar, Guðmundur Sigurðsson, hafa um margra ára skeið verið í forsvari fyrir félagið og unnið myrkrana á milli til þess að koma upp m.a. góðri aðstöðu fyrir ört vaxandi félag í kjallara íþróttahússins við Vesturgötu. Jónína hefur einnig verið í hlutverki þjálfara og í raun tekið að sér flest þau verkefni sem fylgir því að reka íþróttafélag.
Á 28. ársþingi Keilusambands Íslands sem fram fór um liðna helgi var Jónína Björg sæmd silfurmerki Keilusambands Íslands. Guðjón Júlíusson úr KFR fékk einnig slíka viðurkenningu frá Keilusambandi Íslands.
Á þinginu var Einar Jóel Ingólfsson úr ÍA kjörinn í stjórn sambandsins.
Kosið var um tvö sæti í aðalstjórn og voru þau Einar Jóel Ingólfsson ÍA og Geirdís Hanna Kristjánsdóttir ÍR ein í framboði og því sjálfkjörin. Hörður Ingi Jóhannsson ÍR, Svavar Þór Einarsson ÍR og Helga Hákonardóttir Ösp voru kjörin varamenn til eins árs. Fyrir í stjórn sitja Jóhann Ágúst Jóhannsson ÍR formaður, Hafþór Harðarson ÍR varaformaður og Skúli Freyr Sigurðsson KFR meðstjórnandi.