Á Selfossi er kona sem lætur fátt stöðva sig í því að njóta lífsins og mættu margir taka hana til fyrirmyndar þegar kemur að hreyfingu og útiveru. Ingunn Pálsdóttir heitir konan og hún er þar að auki er með góðar tengingar á Akranes og er því að sjálfsögðu til umfjöllunar á Skagafréttum.
Páll Guðmundsson, sonur hennar Ingunnar, var um tíma leikmaður knattspyrnuliðs ÍA og Laufey Guðmundsdóttir dóttir hennar hefur m.a. verið félagsmaður Golfklúbbnum Leyni. Ritstjórn Skagafrétta tengist Ingunni ættarböndum og er hún því í miklu uppáhaldi líkt og lagið „Bahama“ sem ömmudrengur Ingu samdi á sínum tíma með hljómsveit sem tengist veðri.
Páll er mikill útivistargarpur og hann gaf Skagafréttum góðfúslegt leyfi til þess að birta þessa frásögn þar sem að rauði þráðurinn er að Páll tók 88 ára gamla lögblinda móður sína með í ferð á hæsta tind Íslands, sjálfan Hvannadalshnúk.
„Ég og konan mín Auður Elva Kjartansdóttir komum við á Selfossi hjá mömmu á leiðinni á Hvannadalshnúk. Mamma spurði hvort hún mætti ekki koma með, hún væri 88 ára og hefði aldrei gengið á hæsta tind landsins og það væri ekki seinna vænna. Við erum á þeirri skoðun að það sé gaman að fólk sé jákvætt og til í að gera allskonar hluti. Við sögðum því bæði að hún væri að sjálfsögðu velkomin velkomin með okkur. Án þess að vita hvað hún ætlaði langt með þetta. Hún var skömmu síðar mætt með okkur í Skaftafell, vopnuð ísexi,“ segir Páll í léttum tón.
„Þetta var skemmtileg hugmynd hjá mömmu en við vissum svo sem að hún færi aldrei alla leið – sagan var allavega góð.
Þetta eftirminnilega ferðalag varð að lokum að fínni miðnæturgöngu en fyrir lögblinda konu var rökkrið helsta hrindrunin – ekki gangan upp í Sandfellið. Við snérum við í vatnspásu við læk í Sandfellinu, fylltum á brúsana, og gengum niður aftur og þessi minning mun lifa. Þetta ferðalag hennar er samt sem áður tilefni til þess að minna fólk á öllum aldri að það er allt hægt er viljinn er fyrir hendi,“ segir Páll Guðmundsson við Skagafréttir og minnir alla göngugarpa á að gangan á Hvannadalshnúk er ein lengsta dagsganga sem hægt er að finna í Evrópu.
„Hækkunin er í 2100 metra og vegalengdin alls um 20 km. Því er rétt að hafa í huga að góður undirbúningur, réttur búnaður og fylgd með reyndum fararstjórum eru mjög mikilvæg atriði þegar ganga á Hvannadalshnúk er skipulögð,“ segir Páll Guðmundsson að lokum.