Heildarmat fasteigna hækkkar um 7,4% á landsvísu – umtalsvert lægri hækkun á Akranesi


Heildarmat fasteigna á Íslandi hækkar um 7,4% frá yfirstandandi ári og verður 10.340 milljarðar króna, samkvæmt fasteignamati Þjóðskrár fyrir árið 2022. Þetta er umtalsvert meiri hækkun en tilkynnt var um fyrir ári síðan þegar fasteignamat hækkaði um 2,1% á landinu öllu.

Nánar á vef Þjóðskrár.

Á Akranesi hækkar fasteignamatið um 1,9% í sérbýli og 1,8% í fjölbýli. Meðalverð á fermetra í sérbýli á Akranesi verður 303 þúsund kr. en í fjölbýli verður meðalverðið 343 þúsund kr.

Samanlagt mat íbúða á öllu landinu hækkar um 7,9% á milli ára og verður alls 7.155 milljarðar króna, þar af hækkar sérbýli um 8,2% á meðan fjölbýli hækkar um 7,7%.

Fasteignamat íbúða hækkar um 8,9% á höfuðborgarsvæðinu á meðan hækkunin er 5,2% á landsbyggðinni.

Fasteignamat íbúða hækkar mest í Bolungarvíkurkaupstað en þar hækkar íbúðarmatið um 30,7%, í Kjósarhreppi um 29,4% og í Ísafjarðarbæ um 23,6%. Mestu lækkanir á íbúðamati eru í Skorradalshreppi þar sem fasteignamat íbúða lækkar um 2,6%.

Fasteignamat atvinnuhúsnæðis hækkar um 6,2% á landinu öllu; um 5,4% á höfuðborgarsvæðinu en um 8% á landsbyggðinni.