Drífa Harðardóttir fagnaði sínum tólfta Íslandsmeistaratitli


Drífa Harðardóttir, badmintonmaður ársins 2020 hjá ÍA, sýndi og sannaði um liðna helgi að hún er ein fremsta badmintonkona Íslands. Drífa fagnaði sigri í tvenndarleik á Íslandsmótinu í badminton þar sem hún lék með Kristófer Darra Finnssyni úr TBR. Þetta er annað árið í röð sem þau Drífa og Kristófer Darri fagna þessum titli.

Mótherjar þeirra í úrslitaleiknum voru þau Daníel Jóhannesson og Sigríði Árnadóttur en þau eru bæði í TBR. Leikurinn fór 21-17 og 21-18.

Drífa fagnaði einnig Íslandsmeistaratitli í tvíliðaleik þar sem hún lék með Elsu Nielsen úr TBR. Arna Karen Jóhannsdóttir og Sigríður Árnadóttir, báðar úr TBR, voru mótherjar þeirra í úrslitaleiknum sem endaði 21-13 og 27-25.

Drífa hefur orðið Íslandsmeistari tólf sinnum, fimm sinnum í tvíliðaleik og sjö sinnum í tvenndarleik. Drífa er sú kona sem oftast hefur orðið Íslandsmeistari í meistaraflokki undir merkjum ÍA.

Drífa varð Íslandsmeistari í tvíliðleik árin 2004, 2015-2016, 2019 og 2021. Þá varð hún einnig Íslandsmeistari í tvenndarleik árin 1998-1999, 2003-2004, 2006, 2020 og 2021.

Sigríður er reyndar með góðar tengingar á Akranes en hún er dóttir Skagamannsins Árna Þórs Hallgrímssonar sem var á sínum tíma í fremstu röð í badmintoníþróttinni.

Drífa hefur alla tíð spilað fyrir ÍA á Íslandi, þó svo að hún búi og æfi í Danmörku og hefur gert í nokkur ár. Drífa leggur áherslu á tvíliða- og tvenndarleik og spilar þær greinar með liði sínu Hvidovre í liðakeppni í Danmörku.

http://localhost:8888/skagafrettir/2020/12/21/badmintonmadur-arsins-2020-drifa-hardardottir/