Myndasyrpa frá frábærum bikarleik Kára gegn stórliði KR


Knattspyrnulið Kára á Akranesi var ekki langt frá því að leggja stórlið KR að velli í 32-liða úrslitum Mjólkurbikarkeppni karla í knattspyrnu í gær í Akraneshöll. Leikmenn Kára léku gríðarlega vel og gáfu ekkert eftir í baráttunni við sigursælasta liða allra tíma í bikarkeppni KSÍ.

Marinó Hilmar Ásgeirsson kom Kára yfir á 40. mínútu eftir góða sendingu frá Leó Reynissyni. Skömmu áður hafði Gabríel Þórðarson átt skot sem hafnaði í þverslá KR-marksins.

Staðan var 1-0 í hálfleik en Kári hélt uppteknum hætti í síðari hálfleik með góðri byrjun. Marinó Hilmar átti m.a skalla í slá af stuttu færi eftir glæsilega sókn Kára. Andri Júlíusson var aðgangsharður í vítateig KR og átti að flestra mati að fá dæmda vítaspyrnu eftir að varnarmaður KR sparkaði hann niður í vítateignum – en dómarar leiksins sáu brotið ekki.

Óskar Örn Hauksson jafnaði metin fyrir KR á 71. mínútu og Ægir Jarl Jónasson kom KR yfir fjórum mínútum síðar. Staðan 2-1 og það reyndust vera lokatölur leiksins.

Káramenn geta gengið stoltir frá þessum leik sem fer í sögubækur félagsins. Frábær leikur í alla staði sem fjölmargir áhorfendur í Akraneshöll kunnu vel að meta.

Hér fyrir neðan er myndasyrpa frá leiknum á fésbókarsíðu Skagafrétta.

Smelltu hér.