Mjög skiptar skoðanir um fjárhagsstöðu Akraneskaupstaðar í bæjarráði


Það eru skiptar skoðanir í bæjarráði hvað varðar stöðu Akraneskaupstaðar þegar kemur að þróun rekstrartekna og rekstrargjalda á fyrstu mánuðum ársins 2021. Fulltrúi Sjálfstæðisflokksins sem er minnihluta í bæjarstjórn lagði fram bókun þar sem flokkurinn ítrekaði enn og aftur áhygggjur sínar af stöðu mála.

Í svari meirihluta bæjarstjórnar frá Samfylkingunni og Framsókn kemur m.a. fram að það sé með ólíkindum að Sjálfstæðisflokkurinn haldi því fram að rekstur Akraneskaupstaðar stefni í að verða ósjálfbær þar sem Akraneskaupstaður var eitt fárra sveitarfélaga sem skilaði jákvæðri rekstrarniðurstöðu á árinu 2020 og á nú um 1,8 milljarða í handbæru fé.

Bókun Sjálfstæðisflokksins (RÓ) er eftirfarandi:

Sjálfstæðisflokkurinn ítrekar enn og aftur áhyggjur sínar af þróun rekstrartekna og rekstrargjalda Akraneskaupstaðar. Gjöld halda áfram að hækka umfram tekjur og rekstur sveitarfélagsins stefnir í að verða ósjálfbær. Á fyrstu 5 mánuðum ársins 2021 er rekstrarhalli fyrir fjármagnsliði um 233 m.kr. Bent hefur verið á að laun og launatengdgjöld Akraneskaupstaðar hafa hækkað verulega á undanförnum árum og var í ársreikningi fyrir árið 2020 um 73% af heildartekjum bæjarsjóðs. Rétt er að benda á að í sögulegu samhengi hefur það hlutfall aldrei verið hærra hjá Akraneskaupstað og er nú það hæsta sem sést hjá sveitarfélögum á Íslandi. Þegar stærsti tekjustofn kaupstaðarins, útsvarstekjur, er skoðaður í takt við þróun launa og launatengdra gjalda þá er svo komið að bæjarsjóður þarf að horfa til annarra tekna til að eiga fyrir þessum stóra útgjaldalið. Hlutfall launakostnaðar á móti greiddri staðgreiðslu hefur farið úr 92% árið 2018 í 109% nú árið 2021. Áhyggjuefni sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur bent reglulega á en fær því miður að vaxa í tíð núverandi meirihluta, bæjarfulltrúa Samfylkingarinnar og Framsóknar og frjálsra. 

Rakel Óskarsdóttir (sign)

Bókun Samfylkingar, Framsóknar og frjálsra – ELA og VLJ er eftirfarandi:

Samfylkingin og Framsókn og frjálsir standa nú sem áður fyrir ábyrga fjármálastjórn um leið og áhersla er lögð á að verja grunnstoðir samfélagsins.
Það að Sjálfstæðisflokkurinn haldi því fram að rekstur Akraneskaupstaðar stefni í að verða ósjálfbær er með ólíkindum þar sem Akraneskaupstaður var eitt fárra sveitarfélaga sem skilaði jákvæðri rekstrarniðurstöðu á árinu 2020 og á nú um 1,8 milljarða í handbæru fé. Þetta er staðan að loknu ári þar sem öll bæjarstjórn Akraness var sammála um að verja og vernda íbúa, fyrirtæki og félagasamtök fyrir efnahagslegum áhrifum heimsfaraldurs kórónaveirunnar þó það myndi þýða lakari rekstrarafkomu um tíma.
Það að bera saman útsvarstekjur og launagjöld er mælikvarði sem segir lítið sem ekkert um rekstrarárangur Akraneskaupstaðar eða sveitarfélaga yfirleitt. Í besta falli verður þetta að teljast tilraun til að afvegaleiða umræðuna um fjárhagsstöðu bæjarins. Staðreyndin er sú að rekstur sveitarfélaga verður að skoða á heildstæðan hátt þar sem allar tekjur og öll rekstrargjöld eru tilgreind en það gerir fulltrúi Sjálfstæðisflokksins ekki í bókun sinni.
Þekkt er að fyrstu mánuðir hvers rekstrarárs eru þyngri heldur en síðari hluti ársins, en í rekstraryfirliti fyrir fyrstu fimm mánuði ársins kemur fram að rekstrarhallinn sé 233 milljónir en áætlun gerði ráð fyrir 240 milljóna halla. Afkoman er því 7 milljónum betri fyrir fjármagnsliði heldur en áætlunin gerði ráð fyrir. Þegar fjármagnsliðir eru reiknaðir með er afkoman 16,7 milljónum betri en áætlunin gerði ráð fyrir.
Mikilvægt er að halda áfram ábyrgri fjármálastjórn, skoða möguleika til tekjumyndunar, halda aftur af útgjöldum og verja um leið grunnstoðir samfélagsins.
Þá vegferð ætla fulltrúar Samfylkingarinnar og Framsóknar og frjálsra að halda áfram að feta.

Elsa Lára Arnardóttir (sign)
Valgarður L. Jónsson (sign)