Flottur árangur hjá efnilegu sundfólki úr ÍA á AMÍ 2021 á Akureyri


Sundfólk frá Sundfélagi Akraness stóð sig með prýði á Aldursflokkameistaramóti Íslands sem fram fór á Akureyri helgina 25.-27. júní s.l. Á þessu móti eru keppendur á aldrinum 10-17 ára en ÍA var með 16 keppendur.

Mótið er bæði keppni á milli liða þar sem átta fyrstu sundmenn í hverri grein og hverjum aldursflokki gefa stig og einnig eru stigahæstu sundmenn hvers aldursflokks krýndir.

Í tilkynningu frá Sundfélagi Akraness kemur fram að keppendur frá ÍA hafi staðið sig mjög vel bætt sig mikið og mörgum markmiðum var náð. Alls náði sundfólkið efnilega úr ÍA að bæta árangur sinn í 75 sundum og allir stóðu sig mjög vel.

Lið Skagamanna í 4x100m skriðsundi pilta (15-17 ára) vann silfur eftir frábæra keppni á tímanum 3.43,94 mín. þar sem allir strákarnir syntu um 2-3 sekúndur undir sínum bestu tímum.
Sveitin var skipuð þeim Einari Margeiri Ágústssyni (55.65 sek.), Guðbjarna Sigþórssyni (56,70), Kristjáni Magnússyni (56,19) og Alex Benjamín Bjarnasyni (55.40).
Sama sveit var í 4. sæti í 4x100m fjórsundi.

Stelpulið Skagamanna í 15-17 ára flokki var í 4. sæti í bæði 4x100m skriðsundi og 4x100m fjórsundi. Í liðinu voru Guðbjörg Bjartey Guðmundsdóttir, Karen Káradóttir, Ragnheiður Karen Ólafsdóttir og Ingibjörg Svava Magnúsardóttir.

Á mótinu eru veitt verðlaun fyrir efstu sex sætin.

Eftirtaldir sundmenn SA fengu verðlaun:

Í flokki 15-17 ára:

Guðbjörg Bjartey Guðmundsdóttir vann brons í 100m skriðsundi og varð einnig sjötta í 100m baksundi.

Einar Margeir Ágústsson var í 4. sæti í 100 og 200m bringusundi, og 6. sæti í 100m skriðsundi og 100m baksundi.

Ragnheiður Karen Ólafsdóttir var í 4. sæti í 100m bringusundi og 6. sæti í 200m bringusundi.

Ingibjörg Svava Magnúsardóttir var í 4. sæti í 800m skriðsundi.

Guðbjarni Sigþórsson var í 5. sæti í 400m fjórsundi og 200m baksundi.

Í flokki 13-14 ára:

Víkingur Geirdal 6. sæti í 100m skriðsundi.

Liðið var með 75 bætingar og allir stóðu sig mjög vel.

Á mótinu kepptu þau Ragnheiður Karen Ólafsdóttir, Alex Benjamín Bjarnason, Kristján Magnússon, Einar Margeir Ágústsson, Guðbjörg Bjartey Guðmundsdóttir, Ingibjörg Svava Magnúsardóttir, Guðbjarni Sigþórsson, Karen Káradóttir, Helga Rós Ingimarsdóttir, Ásdís Erlingsdóttir, Víkingur Geirdal, Íris Arna Ingvarsdóttir, Arna Karen Gísladóttir, Aldís Lilja Viðarsdóttir, Sunna Dís Skarphéðinsdóttir og Viktoria Emilia Orlita.

Alls tóku 17 sundlið þátt í mótinu og voru keppendur 285. Lið ÍRB frá Reykjanesbæ var sigurvegari mótsins en í 2. sæti var lið SH frá Hafnarfirði og í 3. sæti var lið Sunddeildar Breiðabliks úr Kópavogi.
Mótið fór vel fram og var gleðin við völd þar sem sundmenn stóðu þétt saman og voru duglegir að hvetja aðra sundmenn.

Sundfélag Akraness þakkar fararstjórum, dómurum og foreldrum kærlega fyrir ómetanlegt framlag þeirra.