Besti leikur kvennaliðs ÍA og miklar framfarir eru á leik liðsins


Kvennalið ÍA gerði markalaust jafntefli gegn Haukum í Lengjudeildinni á Íslandsmótinu í knattspyrnu þann 9. júlí s.l. Leikurinn var í 9. umferð Íslandsmótsins en bæði lið eru um miðja deild.

Í ítarlegri frásögn frá leiknum á fésbókarsíðu Knattspyrnufélags ÍA kemur fram að leikur ÍA hafi verið sá besti fram til þessa á tímabilinu. Þrátt fyrir að ekkert mark hafi verið skorað í leiknum fengu bæði lið góð færi – og Haukar náðu ekki að nýta vítaspyrnu sem liðið fékk í leiknum.

„Ef liðið heldur áfram að spila eins og í þessum leik þarf ekki að hafa nokkrar áhyggjur af framhaldinu því mörkin munu skila sér fyrr en varir,“ segir greinarhöfundur í umsögn sinni um leikinn og bætir við.

„Í heild var þetta góður leikur og frábær frammistaða hjá öllum leikmönnum. Miklar framfarir og það verður spennandi að sjá hvort stelpurnar fylgja þessu eftir á miðvikudaginn 17. júlí þegar lið Gróttu kemur í heimsókn á Skipaskaga. Við skorum enn og aftur á alla stuðningsmenn ÍA að fjölmenna á völlinn og styðja stelpurnar okkar í harðri baráttu Lengjudeildarinnar en aðeins tvö stig skilja að lið í fjórða og sjöunda sæti deildarinnar. Það var virkilega gaman að sjá hversu margir mættu í gær og hvöttu stelpurnar til dáða,“ segir í umsögninni.