Áætlanir um nýtt hótel við golfvöllinn komnar í formlegt ferli


Bæjarráð, í umboði bæjarstjórnar Akraness, samþykkti á síðasta fundi sínum að auglýsa til kynningar skipulagslýsingu vegna mögulegrar breytingar á aðalskipulagi Akraness 2005-2017 og deiliskipulags Garðavelli 1 (golfvöllur deiliskipulag) vegna fyrirhugaðrar hótelbyggingar á byggingarreit deiliskipulagsins.

Í breytingunni er gert ráð fyrir hótelbyggingu sem mun rísa norðan við Garðavelli, frístundamiðstöðina, sem er við golfvöllinn. Húsið er á einni hæð með kjallara að hluta til. Gert er ráð fyrir að kjallarinn nýtist sem geymsla fyrir golfbíla. Hótelið verður með 64 herbergjum og með möguleika á móttöku og veitingaaðstöðu.

Snorri Hjaltason, byggingaverktaki og fjárfestir, sem á m.a. B59 hótelið glæsilega í Borgarnesi hefur ýtt þessu verkefni úr vör í samstarfi við forsvarsmenn Golfklúbbsins Leynis og framkvæmdastjóra klúbbsins.

Hótelbyggingar hafa verið til umræðu í mörg ár á Akranesi en fyrirhuguðum byggingareit fyrir hótel á „Fólksbílareitnum“ við Kirkjubraut hefur verið breytt í byggingarreit fyrir fjölbýli og verslanir.

Gert er ráð fyrir að hótelbyggingin liggi meðfram 1. braut vallarins eins og sjá má á þessari skýringamynd.

http://localhost:8888/skagafrettir/2021/05/03/hotelbygging-a-golfsvaedinu-faer-jakvaed-vidbrogd-hja-baejaryfirvoldum/
http://localhost:8888/skagafrettir/2021/02/24/fjarfestir-og-hoteleigandi-synir-thvi-ahuga-ad-byggja-hotel-vid-golfvollinn/