Runólfur Hallfreðsson ehf., sem er dótturfélag Síldarvinnslunnar, hefur gengið frá sölu á uppsjávarskipinu Bjarna Ólafssyni AK 70 til erlendra aðila. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Síldarvinnslunni.
Salan er þó háð ákveðnum fyrirvörum af hálfu kaupenda sem munu skýrast innan mánaðar.
Ef af verður mun skipið verða afhent nýjum eigendum á haustmánuðum.
Eins og kunnugt er tók Síldarvinnslan á móti nýju skipi í júníbyrjun sem fékk nafnið Börkur. Í kjölfarið mun eldri Börkur fá nafnið Bjarni Ólafsson AK 70 og mun áhöfn og aflaheimildir þá flytjast á milli.
Bæjarráð Akraness samþykkti á síðasta fundi sínu að falla frá forkaupsrétti Akraneskaupstaðar á Bjarna Ólafssyni Ak 70. Núverandi lagaumhverfi tryggir sveitarfélögum einungis forkaupsrétt að fiskiskipum en ekki að þeim aflaheimildum sem kunna að fylgja viðkomandi fiskiskipi.