Mikilvægur leikur gegn FH á dagskrá í dag hjá karlaliði ÍA í PepsiMax deildinni


Karlalið ÍA leikur í dag gegn FH á Norðurálsvellinum í PepsiMax deildinni í knattspyrnu, efstu deild. Leikurinn, sem hefst kl. 17:00, er afar mikilvægur fyrir bæði liðin sem eru í neðri hluta deildarinnar.

ÍA landaði frábærum 2-1 sigri í síðustu umferð gegn Íslandsmeistaraliði Vals og var annar sigurleikur ÍA á tímabilinu.

ÍA er í neðsta sæti með 9 stig eftir 13 umferðir en þar fyrir ofan er HK með 10 stig eftir 13 umferðir.

Á næstu þremur vikum eru fimm afar mikilvægir leikir á dagskrá hjá karlaliði ÍA. Eftir leikinn gegn FH í dag eru tveir fallbaráttuleikir gegn Stjörnunni á útivelli og gegn HK á heimavelli þann 8. ágúst.

ÍA og FH eigast á ný við þann 11. ágúst en sá leikur er í átta liða úrslitum Mjólkurbikarkeppni KSÍ 2021. Lokaleikurinn í þessari törn er gegn Breiðabliki á útivelli 15. ágúst.