Vala María Sturludóttir er ein af efnilegustu kylfingum Golfklúbbsins Leynis en hún er 13 ára og fer í 8. bekk í Grundaskóla á næstu dögum. Vala María gerði sér lítið fyrir og sló draumahöggið á 14. braut Garðavallar – afrek sem aðeins þrír aðrir kylfingar hafa afrekað allt frá því að þessi hluti Garðavallar var opnaður í byrjun júlí árið 2000.
Jóhannes Karl Guðjónsson, þjálfari mfl. ÍA í knattspyrnu, fór fyrstur holu í höggi á 14. braut stuttu eftir að holan var opnuð. Það högg er ekki skráð hjá Einherjaklúbbnum en Jóhannes sagði frá því í afmælisriti Leynis sem kom út árið 2005.
Nánar á vef Einherjaklúbbsins.
Frá þeim tíma eru þrír aðrir kylfingar skráðir með draumahögg á 14. braut Garðavallar. Helga Ingibjörg Reynisdóttir þann 27. ágúst árið 2011, Jón Smári Svavarsson á meistaramóti Leynis þann 7. júlí 2020 og Vala María Sturludóttir 21. júlí 2021.
Vala María lýsir högginu þannig:
„Ég sló boltann með 3-tré af um 150 metra færi. Ég fann að höggið að var gott, boltinn lenti fyrir framan grínið, skoppaði inn á grínið og rúllaði ofaní holuna. Ég vissi ekkert hvað ég átti að gera eða hvað var að gerast. Ég öskraði bara eitthvað og lagðist síðan á teiginn í rúma mínútu á meðan ég var að átta mig á þessu. Elsa Maren Steinarsdóttir og Valdimar Ólafsson voru að spila með mér og þau fögnuðu líka.“
14. holan er að sjálfsögðu uppáhaldsholan hjá Völu eftir draumahöggið með Titleist True Feel boltanum sem hún notaði. „Það eru margar holur skemmtilegar á Garðavelli og 1. holan hefur alltaf verið ein af mínum uppáhaldsholum.“
„Golf og fótbolti eru helstu áhugamálin mín. Ég byrjaði af alvöru í golfinu fyrir tveimur árum en ég fór mjög ung með mömmu á æfingasvæðið. Það sem mér finnst skemmtilegast við golfið er að reyna að bæta mig. Ég hef leikið best á 77 höggum og langar að bæta það fljótlega. Langtímamarkmið hjá mér er að komast í landsliðið og fá tækifæri að spila á móti í útlöndum,“ segir Vala María Sturludóttir en foreldrar hennar eru þau Arna Magnúsdóttir og Sturla Guðlaugsson.