Spennandi valkostir á Smiðjuloftinu og afmælisdagskrá framundan

Það verður nóg um að vera á Smiðjuloftinu í vetur og þar á bæ er starfið komið á fulla ferð eftir gott sumafrí. Valgerður Jónsdóttir og Þórður Sævarsson hafa staðið vaktina á Smiðjuloftinu frá því að þau ýttu verkefninu úr vör og segir Valgerður að það verð allskonar skemmtilegir fastir liðir í boði í bland við áhugaverðar nýjungar.

„Tónlistarnámskeið fyrir 3-5 ára börn hefur fest sig í sessi hjá okkur og hefst nýtt námskeið sunnudaginn 29. ágúst. Æfingar hjá Klifurfélagi ÍA hefjast 30. ágúst og einnig æfingahópar fyrir fullorðna en þeim fjölgar stöðugt sem stunda klifur til að styrkja sig og efla heilsuna,“ segir Valgerður og vekur athygli á afmælishátíð Smiðjuloftsins sem mun standa yfir dagana 2.-5. september.

„Við fengum styrk í fyrra frá Uppbyggingarsjóði Vesturlands til að halda nokkra viðburði hjá okkur. Við ætlum að bjóða upp á röð af viðburðum fyrir fólk á öllum aldri og höldum aðgangseyri í lágmarki. Við komum ekki mörgum fyrir hjá okkur í einu svo við hvetjum áhugasama til að verða sér úti um miða í forsölunni hjá okkur 30. ágúst – 2. september kl. 17-20 á Smiðjuloftinu,“ segir Valgerður.

Á meðal viðburða eru þjóðlagatónleikar, trúðasýning og loftfimleikar í silki en allar nánari upplýsingar má finna í viðburðum á facebook síðu Smiðjuloftsins.

„Að lokum verð ég að nefna ótrúlega spennandi  nýjung hjá okkur, því 17. september hefst námskeið í Silki-loftfimleikum þar sem loftfimleikakonan Lauren Charnow hjá Kría-Aerial Arts kemur og kennir þessa einstöku listrænu íþrótt,“ segir Valgerður.  

Nánari upplýsingar eru hér: