Biskup Íslands hefur staðfest ráðningu á nýjum presti í Garða – og Saurbæjarprestakalli


Sr. Ólöf Margrét Snorradóttir er nýr prestur í Garða – og Saurbæjarprestakalli. Þetta kemur fram á vefnum kirkjan.is.

Kjörnefnd kaus sr. Ólöfu Margréti Snorradóttur, til starfans og hefur biskup Íslands, sr. Agnes M. Sigurðardóttir, staðfest ráðningu hennar.

Alls sóttu ellefu um og tveir umsækjenda óskuðu nafnleyndar:

Árni Þór Þórsson, guðfræðingur
Edda Hlíf Hlífarsdóttir, guðfræðingur
Erna Kristín Stefánsdóttir, guðfræðingur
Helga Bragadóttir, guðfræðingur
Hilmir Kolbeins, guðfræðingur
Hjördís Perla Rafnsdóttir, guðfræðingur
Sr. Ólöf Margrét Snorradóttir
Þorgeir Albert Elíeserson, guðfræðingur
Sr. Ursula Árnadóttir


Sr. Ólöf Margrét Snorradóttir er fædd á Ísafirði 1971. Foreldrar hennar eru Fríða Hjálmarsdóttir, sjúkraliði, og Snorri Sturluson, fiskmatsmaður.

Sr. Ólöf ólst upp fyrstu árin í Önundarfirði en síðar á Húsavík. Hún lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum við Sund 1992, B.A-prófi í almennum málvísindum 1997 og starfaði í nokkur ár hjá Orðabók Háskólans. Kandidatsprófi í guðfræði lauk hún 2013. Hún vígðist til Egilsstaðaprestakalls 2014 og hefur starfað þar síðan. Þá lauk sr. Ólöf diplómanámi í sálgæslufræðum 2020. Sr. Ólöf er fráskilin og á þrjár dætur.


Garða- og Saurbæjarprestakall samanstendur af fjórum sóknum, Akranessókn með um 7.800 íbúa, Saurbæjarsókn á Hvalfjarðarströnd með rúmlega 140 íbúa, Leirársókn með rúmlega 300 íbúa og Innra-Hólmssókn með rúmlega 150 íbúa. Fjórar kirkjur eru í prestakallinu, Akraneskirkja, Hallgrímskirkja í Saurbæ, Leirárkirkja og Innra- Hólmskirkja.