Akraneskaupstaður leitar að nýjum skrifstofustjóra á skrifstofu bæjarstjóra


Akraneskaupstaður auglýsti í dag laust til umsóknar starf skrifstofustjóra á skrifstofu bæjarstjóra.

Skrifstofa bæjarstjóra er ný eining sem stofnuð var um síðustu áramót.

Sædís Alexía Sigurmundsdóttir hefur gegnt því starfi frá áramótum en hún var áður deildarstjóri á stjórnsýslu- og fjármálasviði Akraneskaupstaðar. Sædís Alexía hefur starfað hjá Akraneskaupstað í að verða átta ár og hefur sinnt sambærilegum verkefnum á sviði þjónustu og stafrænnar þróunar ásamt atvinnu-, ferða- og markaðsmálum.

Í auglýsingunni sem birt er á alfreð.is er óskað er eftir metnaðarfullum og framsýnum leiðtoga sem hefur mikið frumkvæði og drifkraft til að þróa áfram stafræna stjórnsýslu hjá kaupstaðnum og efla þjónustu við íbúa.

Undir skrifstofuna falla mannauðsmál, verkefnastofa, þjónusta- og stafræn þróun, atvinnumál, ferðamál, markaðsmál og menningar- og safnamál.

Hlutverk skrifstofunnar er að ná betri samþættingu málaflokka ásamt því að auka og bæta innri og ytri þjónustu Akraneskaupstaðar, auka skilvirkni í rekstri sveitarfélagsins með upplýsingatækni, skýrari verkferlum, stjórnun og öflugu starfsumhverfi.

Skrifstofustjóri gegnir forystuhlutverki í þjónustu- og stafrænni þróun, atvinnuuppbyggingu, ferða- og markaðsmálum ásamt menningar- og safnamálum.