Nýtt húsnæði FEBAN verður nýtt sem hluti af bæjarskrifstofu Akraness til bráðabirgða


Vegna loftgæðavandamála í húsnæði bæjarskrifstofu Akraness við Stillholt 16-18 mun hluti af starfsfólki skrifstofunnar færa sig um set í nýja vinnuaðstöðu við Dalbraut 4.

Um er að ræða nýtt húsnæði sem er ætlað undir starfssemi Félags eldri borgara á Akranesi – FEBAN.

Þetta kemur fram í fundargerð bæjarráðs frá því í gær 26. ágúst 2021.

Á fundinum samþykkti bæjarráð viðbótarframlag að fjárhæð 14,1 milljónir kr. vegna fyrirhugaðra flutninga starfsfólks og starfsemi bæjarskrifstofa Akraness frá Stillholti 16-18 að Dalbraut 4.

Í bókun bæjarráðs kemur fram að ráðið óskar eftir og vonast til að framkvæmd flutninganna gangi sem best og að röskun á starfseminni verði sem minnst en þá kynnt þjónustuþegum á heimasíðu Akraneskaupstaðar.

Þá þakkar bæjarráð forsvarsmönnum FEBAN fyrir þann góða skilning sem þau hafa sýnt stjórnendum og starfsfólki við þær erfiðu aðstæður sem skapast hafa í starfsemi kaupstaðarins vegna þessa.