Danska stórliðið FCK kaupir Ísak Bergmann


Skagamaðurinn Ísak Bergmann Jóhannesson var í kvöld kynntur sem nýr leikmaður danska stórliðsins FCK í Kaupmannahöfn. Danska stórliðið kaupir hinn 18 ára gamla leikmann frá sænska liðinu IFK Norrköping. Samningurinn sem Ísak Bergmann gerir við danska liðið er til ársins 2026 eða til fimm ára.

Samkvæmt frétt sænska dagblaðsins Aftonbladet greiðir FCK um 460 milljónir kr. fyrir Ísak Bergmann eða sem nemur 30 milljónum sænskra kr.

Þessi upphæð gæti hækkað umtalsvert á samningstímanum samkvæmt frétt Aftonbladet. Ísak Bergmann hittir fyrrum liðsfélaga sinn úr yngri flokkum ÍA hjá FCK en Hákon Arnar Haraldsson er á mála hjá félaginu. Tveir aðrir íslenskir leikmenn eru hjá FCK, þeir Andri Fannar Baldursson, Hákon Arnar Haraldsson og Orri Steinn Óskarsson.

FCK var stofnað árið 1992 eftir samruna Kjøbenhavns Boldklub og Boldklubben 1903. Félagið hefur 13 sinnum fagnað danska meistaratitlinum og 8 sinnum orðið danskur bikarmeistari. Liðið er eina danska liðið sem hefur komist í riðlakeppni Meistaradeildar Evrópu. Liðið er eitt það allra stærsta á Norðurlöndunum og leikur það heimaleiki sína á Parken í Kaupmannahöfn.

FCK er í efsta sæti dönsku úrvalsdeildarinnar þegar 7 umferðir eru búnar af tímabilinu – en leikið í dönsku úrvalsdeildinni yfir vetrartímann líkt og í ensku úrvalsdeildinni.

Ísak Bergmann hefur verið orðaður við mörg stórlið í Evrópu. Það er ljóst að FCK telur að Ísak Bergmann sé góður kostur fyrir liðið þar sem að félagið gerir fimm ára samning við hinn 18 ára leikmann.

Nýverið var hinn 19 ára Mohamed Daramy seldur til hollenska stórliðsins Ajax fyrir metfé eða rétt tæplega 2000 milljarða kr.