30 ára afmæli Garðasels – til hamingju með daginn


Ingunn Ríkharðsdóttir, skólastjóri skrifar:

Í dag,  þann 1. september,  fagnar Garðasel 30 ára afmæli sínu og við sem störfum í leikskólanum horfum stolt um öxl, þakklát fyrir einstakt starf sem hefur tekið miklum breytingum á þessum langa tíma.

Garðasel er góður staður
gaman er að leika hér.
Heim ég skokka hress og glaður,
heilsa nýju sumri fer.

Í ungu hjarta ósk ég geymi,
ó, hve dýrðlegt væri það.
Ef að börn i öllum heimi
ættu slíkan griðastað.

Þetta fallega ljóð samdi Kristján Árnason til Garðasels og lýsir það gleðinni og umhyggjunni sem ríkir í starfi Garðasels. Það er ljúft að flétta upp þessu fallega ljóði í dag.

Fall er fararheill 

Opnun Garðasels 1.september 1991 markaði ákveðin tímamót í starfsemi leikskóla á Akranesi með verulegri fjölgun plássa fyrir yngri börnin.  Með nýjum leikskóla urðu til í byrjun 18 heilsdagspláss og 54 hálfsdagspláss en þá komu börnin annaðhvort fyrir eða eftir hádegi og ekki var hádegismatur fyrir þennan hóp.

Við byggingu leikskólans lagðist byggingarkraninn á hliðina en allt fór vel og áfram hélt verkið þegar tekist hafði að reisa kranann við þannig að fall var fararheill í þessu upphafi Garðasels.

Fyrsti leikskólastjórinn í Garðaseli var Brynja Helgadóttir en Ingunn Ríkharðsdóttir hefur verið starfandi skólastjóri frá árinu 1999.

Lífið er ævintýri sem allir eiga að fá að taka þátt í 

Ævintýri barna og starfsmanna í Garðaseli í 30 ár hefur verið fallegt og gefandi þar sem fagmennska, mikill metnaður og öflug skólaþróun hefur einkennt starfið frá upphafi með breyttum kröfum og áherslum sem birst hafa á þessari löngu vegferð.

Ávallt hefur verið leitað bestu leiða til að skapa börnunum umhverfi sem hvetur þau til dáða og byggir upp jákvæða sjálfsmynd þeirra sem þau taka með sér út í lífið um leið og þau þroskast og dafna til annarra áskoranna sem bíður þeirra.  Hindranir í lífinu eru áskoranir til að leysa.

Leikskólinn hefur það meginhlutverk að jafna stöðu barna og veita þeim sömu tækifæri til að njóta og upplifa það sem hver dagur færir þeim. Það hefur tekist vel í Garðaseli og fjölbreyttur barnahópur hefur fylgt skólanum í gegnum þennan tíma  þar sem hverjum og einum hefur verið og er mætt á eigin forsendum. Hvað er dásamlegra en að fá að leika í stórum hópi, eignast vini og byggja upp trú á eigin getu  þar sem styrkleikar barna fá að njóta sín ? 

Hreyfing og skipulagðar hreyfistundir, útivist, frjáls leikur, dans, listsköpun, lestur bóka, söngur, vettvangsferðir, fjölbreyttar sýningar og viðburðir  og margt fleira eru viðfangsefni barna á skólagöngu þeirra í Garðaseli.  Gleðin er í fyrirrúmi og það er nærandi að hafa gaman.

Fagmennska og metnaður í starfi 

Garðasel hefur ávallt búið að öflugum og metnaðarfullum starfsmannahópi, sem hefur leitt starfið áfram til þess sem það er í dag. Breytingar í leikskólastarfi á þessum árum eru mjög miklar og í raun fátt sambærilegt með starfinu í dag til þess sem var. Þessari þróun ber að fagna og í dag er leikskólastigið skilgreint sem fyrsta skólastigið í menntun á Íslandi. Þar er lagður grunnurinn að annarri menntun barna á Íslandi. 

Í dag fagnar Sonja Sveinsdóttir, leikskólakennari, 30 ára starfsafmæli í Garðaseli en hún hóf störf í nýjum leikskóla við opnun hans og í dag eru henni færðar sérstakar þakkir. 

Garðasel í dag

Megináherslur Garðasels í dag eru hreyfing og vellíðan í leik og starfi. Skólinn starfar eftir Heilsustefnu Unnar Stefánsdóttur þar sem hreyfing, holl næring og listsköpun eru megináherslur ásamt því að vinna með velllíðan barna og samskipti í gegnum verkefni Barnaheilla um Vináttu. 

Skólinn heldur úti öflugri heimasíðu og fésbókarsíðu,  þar sem nálgast má upplýsingar um starfið og fréttir og eru þessar síður mikilvægar í samskiptum við foreldra og aðra velunnara skólans.

Foreldrar eru verðmæti í skólastarfi

Með hverju barni í leikskóla fylgja foreldrar og í Garðaseli hefur foreldrahópurinn verið einstakur. Þeir hafa gert ríkar kröfur til skólans en um leið verið afar farsælir samstarfsaðilar sem hafa gert skólastarfið öflugra með velferð barnanna að leiðarljósi. Jákvæðni og samvinna hafa verið leiðarljós foreldrasamstarfsins og leitt þá góðu vegferð sem við höfum átt saman í Garðaseli. Í þessum hópi höfum við eignast góða vini.

Framtíðin – nýtt Garðasel

Fram undan er síðasta skólaárið í Garðaseli ef áætlanir um opnun nýs leikskóla ganga eftir á næsta hausti en þangað mun starfsemi Garðasels flytja. Glæsileg leikskólabygging er í uppbyggingu þar sem hönnunin tekur mið af því að auka rými barna og færa vinnuaðstöðu starfsmanna í það sem best þekkist. Kröfur um hljóðvist, loftgæði og lýsingu eru samkvæmt nýjustu kröfum og munu þessir þættir breyta miklu fyrir börn og starfsfólk skólans.

Áfram munum við starfa í Garðaseli út þetta skólaár með sama metnað að leiðarljósi, með hagsmuni barna í fyrirrúmi og ávallt gera okkar besta hverju sinni.

Til hamingju með daginn, Garðasel ! 

Ingunn Ríkharðsdóttir, skólastjóri