IFK Norr­köp­ing hefur hagnast vel á ungum leikmönnum úr röðum ÍA


Sænska knattspyrnuliðið IFK Norr­köp­ing hefur á undanförnum árum hagnast vel á því að kaupa efnilega leikmenn frá Knattspyrnufélagi ÍA.

Í gær var greint frá því að danska stórliðið FCK í Kaupmannahöfn hefði keypt Ísak Bergmann Jóhannesson frá sænska félaginu.

Ísak Bergmann, sem er 18 ára gamall, gerði fimm ára samning við FCK og eru töluverðar líkur á því að Ísak Bergmann verðir seldur frá FCK á næstu misserum til enn stærra liðs í Evrópu.

Eins og áður segir hefur IFK Norr­köp­ing náð að selja leikmenn úr röðum ÍA fyrir háar fjárhæðir á undanförnum misserum. Arnór Sigurðsson var seldur til Rússneska liðsins CSKA í Moskvu í ágúst árið 2018 eftir að hafa verið í herbúðum IFK Norr­köp­ing í eitt ár. Kaupverðið var um 34 milljónir sænskra króna eða sem nemur rúmlega 520 milljónum kr. Arnór, sem í dag er á láni hjá Venezia á Ítalíu, er dýrasti leikmaðurinn sem hefur verið seldur frá sænska liðinu.

IFK Norr­köp­ing fær samkvæmt heimildum Aftonbladet 30 milljónir sænskra kr. fyrir Ísak Bergmann eða sem nemur um 460 milljónum kr. Við þá upp­hæð gætu svo bæst viðbót­ar­greiðslur að upp­fyllt­um ákveðnum skil­mál­um.

Skagamennirnir tveir hafa því verið góð fjárfesting fyrir IFK Norr­köp­ing sem hefur fengið um 1 milljarð kr. samtals fyrir þessa efnilegu leikmenn.

Knattspyrnufélag ÍA fær uppeldisbætur í gegnum þessum viðskipti og hluta af söluverðinu. Samkvæmt heimildum fotbolti.net í frétt sem skrifuð var í mars árið 2019 fékk Knattspyrnufélag ÍA um 55 milljónir kr. í sinn hlut fyrir söluna á Arnóri Sigurðssyni eða um 10%. Knattspyrnufélag ÍA gæti því fengið svipaða upphæð í sinn hlut í þessum viðskiptum eða um 50 milljónir kr.

IFK Norr­köp­ing er með tvo leikmenn í sínum röðum sem tengjast Akranesi sterkum böndum. Oliver Stefánsson er samningsbundinn félaginu en hann hefur glímt við erfið meiðsli undanfarin misseri. Jóhannes Kristinn Bjarnason, sonur Bjarna Guðjónssonar, og náfrændi Ísaks Bergmanns er einnig samningsbundinn IFK Norr­köp­ing.

Fjöldi íslenskra leikmanna hefur komið við sögu hjá IFK Norr­köp­ing í gegnum tíðina og þar á meðal Skagamennirnir Þórður Þórðarson markvörður, og bróðir hans Stefán Þórðarson. Garðar Gunnlaugsson lék með liðinu um tíma og Birkir Kristinsson, fyrrum markvörður ÍA, var einnig hjá félaginu.