Lagt til að starfsfólk Grundaskóla fái greitt samkvæmt kjarasamningi vegna breyttra aðstæðna


Skóla – og frístundaráð Akraness leggur til að starfsfólk Grundaskóla fái greitt samkvæmt kjarasamningi vegna aukins vinnuframlags og breyttra starfsaðstæðna í kjölfar loftgæðavandamála í skólabyggingunni.

Þetta kemur fram í fundargerð ráðsins og þar segir ennfremur að væntingar hafi skapast um að Akraneskaupstaður greiði starfsfólki Grundaskóla út álagsgreiðslur. Ráðið leggur eins og áður segir til að greitt verði samkvæmt kjarasamningum vegna aukins vinnuframlags – en ekki með sérstökum álagsgreiðslum.

Þar kemur einnig fram að tekin hafi verið ákvörðun um að fara í stórfellda fjárfestingu í Grundaskóla til að bæta húsnæði skólans og færa það í þann búning sem nútímakröfur í skólastarfi kalla á.

„Það er trú skóla- og frístundaráðs að áfram verði skólabragur Grundaskóla til fyrirmyndar og að mannauður skólans blómstri enn frekar með bættri starfsaðstöðu á næstu árum,“ segir í fundargerðinni.

Ítarlegar úttektir hafa farið fram að undanförnu á húsnæði í eigu Akraneskaupstaðar. Úttektirnar hafa leitt í ljós að verulegra úrbóta er þörf í mörgum tilvikum og röskun hefur orðið fyrir starfsfólk og íbúa kaupstaðarins.