Akraneskaupstaður hafnaði forkaupsrétti að húsinu við Vesturgötu 57


Á fundi bæjarráðs Akraness fyrr á þessu ári var tekið fyrir erindi frá Hinriki Haraldssyni vegna forkaupsréttar á húsinu við Vesturgötu 57. Bæjarráð hafnaði erindinu – þar sem að ráðið sá ekki að húsnæðið gæti nýst til lögbundinnar þjónustu sveitarfélagsins.

Húsið sem um ræðir við Vesturgötu 57 er tæplega 100 ára gamalt. Það var byggt árið 1924. Fyrsta símstöð bæjarins var í þessu húsi í tæplega áratug.

Árið 1937 opnaði Árni B. Sigurðsson rakarastofu í þessu húsi og sonur hans Geirlaugur Árnason tók síðan við rekstrinum.

Hinrik Haraldsson, betur þekktur sem Hinni rakari, keypti húsið og aðstöðuna árið 1965 og hófst rekstur stofunnar þann 1. október 1965.

Hársnyrting Hinriks er enn í fullu fjöri þar sem þeir feðgar Hinrik og Haraldur Hinriksson eru í aðalhlutverki.

Eftir því sem best er vitað er Hársnyrting Hinriks elsta rakarastofa landsins sem starfað hefur í sama húsnæði eða í 84 ár.